146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:36]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum hér samankomin við fordæmalausar aðstæður eftir eitthvert það stórkostlegasta pólitíska uppnám sem við höfum upplifað og fall ríkisstjórnar og þess að kosið var snemma. Við erum að klára fjárlög án skýrs meiri hluta í þinginu og sennilega í fyrsta skipti erum við að leggja fram tillögur um fjárlög sem allir flokkar eiga þátt í og leggja fram í sátt málamiðlunartillögu um útgjöld og tekjur.

Við í Bjartri framtíð styðjum þau vinnubrögð, við styðjum það að fjárlögin séu lögð hér fram í sátt. Og í þeim anda sem tillögurnar eru lagðar fram, þar sem enginn er sáttur, enginn fær sín draumaútgjöld eða sínar draumatekjuleiðir í gegn í þeirri málamiðlun, munum við ekki styðja við (Forseti hringir.) breytingartillögur sem gerðar eru á bandorminum þrátt fyrir að þar séu ýmsar ágætar tillögur. (Forseti hringir.) Við höfum til að mynda verið jákvæð gagnvart komugjaldi, en viljum við leggja það á með tíu daga fyrirvara án þess að það sé hluti (Forseti hringir.) af heildstæðri stefnumótun í ferðaþjónustu? Nei, það styðjum við ekki.