146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta eru fordæmalausar aðstæður og unnið hefur verið, eftir því sem ég best veit, án fordæma í nefndum þingsins. Hv. fjárlaganefnd hefur náð niðurstöðu þar sem við aukum útgjöldin gríðarlega mikið og erum alveg komin á ystu brún hvað þau varðar. Það var hins vegar gert til að ná þverpólitískri sátt um framgang fjárlaganna. Ég er ánægður að heyra þann tón hjá þeim hv. forystumönnum stjórnarandstöðunnar eða stjórnarliða stjórnarandstöðu — það er enginn meiri hluti hér núna — sem töluðu með þeim hætti. Ég vil líka segja að ég veit ekki hvort það eru einhverjir skattar þarna inni eða skattar á Íslandi sem ekki á að hækka samkvæmt þessum tillögum. Það má vera, en ég held að ef við virkilega meinum að við viljum vanda vinnubrögð og hugsa til lengri tíma þá setjum við ekki gríðarlegar skattahækkanir á almenning og fyrirtækin í landinu korteri fyrir kosningar án þess að vera búin að skoða það mjög vel. (Gripið fram í: Hvað sagðirðu, kosningar?) (Gripið fram í: Fyrir jól.)