146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég segi eins og aðrir sem hafa bent á það að samkomulag var gert í fjárlaganefnd en ekki í efnahags- og viðskiptanefnd. Þó langar mig að segja um þessa ágætu tillögu að hún er að mörgu leyti góð, en hef ég efasemdir um hana í ljósi þess að hún uppfyllir líklega ekki ákvæði EES-samningsins vegna þess að hún snýr eingöngu að komum erlendis frá en ekki að ferðum innan lands. Þá er verið að brjóta gegn því jafnræði sem gildir á EES-svæðinu. Þó svo að ég hafi ákveðið að greiða atkvæði með tillögunni núna held ég að við ættum að taka þetta til umræðu síðar þegar er kannski er meiri stuðningur við það. Þá ættum við að huga að því að þessu verði vel til hagað, enda er þetta ein leiðin til að reyna að hægja aðeins á þeirri miklu aukningu ferðamannastraums sem veldur okkur vandræðum.