146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga og hugmyndir hafa auðvitað oft komið til tals í samfélaginu. Ég held í ljósi þess sem við höfum rætt um að afgreiða mál á skynsamlegan hátt við þessar aðstæður að eðlilegast sé að ýta þessu máli aðeins inn í framtíðina. Það þarf að taka heildstæða stefnu í gjaldtöku í ferðaþjónustu. Við vorum að samþykkja áðan að hækka gistináttagjald frá 1. september þrefalt, í krónutölu úr 100 í 300 kr. Það eru margir sem hafa bent á það, þar á meðal ég, að kannski væri skynsamlegra að setja á þetta prósentutölu frekar en krónutöluhækkun í gistingunni þannig að ódýr gisting tæki ekki gistináttagjald upp á 300 kr. á meðan sú dýra gerði það. Við þekkjum það frá öðrum löndum. Við þurfum líka að taka samspilið við hvað er eðlilegt að leggja á greinina við þær aðstæður sem uppi eru í dag með stöðugri styrkingu krónunnar og efnahagsáhrifum af því á atvinnugreinina og efnahagslífið. Ég held að ljóst sé að (Forseti hringir.) áhugi manna á að setja slík gjöld á eigi að vísa inn í heildstæða vinnu um hvernig við sjáum ferðaþjónustuna þroskast á næstu árum og hvernig hún nýtist efnahagslífinu og atvinnulífi okkar hvað best.