146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[11:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það eru vissulega breytingar á þessu frumvarpi til bóta en það tekur alls ekki á forsendum þess að þetta frumvarp var tekið á dagskrá núna. Í samfélaginu varð uppi fótur og fit þegar kjararáð ákvað á kjördag að hækka laun þingmanna um yfir 40% fyrirvaralaust. Við lögðum til að þetta frumvarp yrði tekið á dagskrá á þeim forsendum að kjararáði yrðu gefin tilmæli um að endurskoða ákvörðun sína. Það hefur ekki verið gert. Þá var ákveðið að beina þeim tilmælum til forsætisnefndar að tekið yrði þá á ýmsum álagsgreiðslum til þingmanna ef ekkert yrði gert varðandi kjararáð. Ekki hafa komið neinar skýrar tillögur eða frumvarp frá forsætisnefnd til að gera það þannig að ég bendi á að mér finnst fáránlegt að taka þetta mál í gegn núna fyrst forsendur fyrir því að það fór á dagskrá eru algjörlega brostnar.