146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[11:40]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á nýjum lögum um útlendinga sem taka gildi 1. janúar næstkomandi. Frumvarpið felur í sér að gildistöku 1. málsliðar 2. mgr. og 3. mgr. 35. gr. laga um útlendinga er frestað um hálft ár, til 1. júlí 2017, og að í stað þess komi nýtt ákvæði til bráðabirgða sem gildir til þess tíma.

Umrætt ákvæði í 35. gr. kveður á um að kæra ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja umsókn hælisleitenda um alþjóðlega vernd hér á landi í tilteknum málum fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Komið hefur hins vegar í ljós að ekki er fyllilega ljóst til hvaða mála ákvæðið tekur og þar með hvort kærunefnd útlendingamála geti samt sem áður tekið beiðnir um frestun réttaráhrifa til efnislegrar meðferðar. Tilvísun til 29. gr. laganna í heild er óskýr þar sem þetta á í framkvæmd fyrst og fremst við um b-lið 1. mgr. 29. gr. sem snýr að tilhæfulausum umsóknum en ekki aðra stafliði ákvæðisins. Sama óvissa ríkir vegna tilvísunar í 36. gr. laganna í heild.

Til að afstýra slíkri réttaróvissu er því lagt til að gildistöku umræddra ákvæða 35. gr. sé frestað um hálft ár og að í stað þess komi skýrt bráðabirgðaákvæði um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar stofnunin hefur metið umsókn hans um alþjóðlega vernd bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki.

Þá er einnig áréttað að hið sama gildi um ákvörðun sem Útlendingastofnun tekur um að fresta ekki framkvæmd brottflutnings útlendings sem þegar hefur verið ákveðinn.

Með þessu móti er það skýrt að kærunefnd útlendingamála ber að vísa frá kröfum um frestun réttaráhrifa í slíkum málum er synjun Útlendingastofnunar er kærð til nefndarinnar og því getur ákvörðun stofnunarinnar um flutning úr landi komið þegar til framkvæmdar. Það skal hins vegar áréttað að þetta takmarkar ekki kærurétt umræddra einstaklinga til kærunefndarinnar. Með þessu bráðabirgðaákvæði er því í raun verið að framlengja óbreytt réttarástand frá því að efnislega samhljóða bráðabirgðaákvæði var sett í gildandi lög um útlendinga með lögum nr. 106/2016. Tíminn til 1. júlí verður síðan nýttur til að endurskoða og skýra nánar efni 35. gr. útlendingalaga.

Eins og kunnugt er hefur orðið gríðarleg aukning á umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi og hafa nú rúmlega 1.100 einstaklingar sótt um slíka vernd. Meira en 60% umsóknanna hafa komið frá íbúum tveggja ríkja, Albaníu og Makedóníu, nú á haustmánuðum en bæði ríkin eru talin örugg ríki. Langflestar umsóknir umsækjenda frá þessum ríkjum reynast því tilhæfulausar og er synjunarhlutfall þeirra hér sem og annars staðar í Evrópu um 99%. Þessi mikli fjöldi umsókna hefur valdið gríðarlega miklu álagi á móttöku- og þjónustuúrræði í landinu. Þann 1. desember sl. voru 820 manns í þjónustuúrræðum Útlendingastofnunar eða í þjónustu hjá sveitarfélögum. Ljóst er að svona stórt hlutfall tilhæfulausra umsókna dregur úr gæðum þeirrar þjónustu sem veita á með réttu þeim sem raunverulega þurfa á þessu neyðarkerfi flóttamanna að halda. Því er brýnt að Alþingi sendi skýr skilaboð um að það verði ekki misnotað með þessum hætti og að ótvíræð heimild sé til staðar til að flytja fólk úr landi þegar umsókn þess hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus af Útlendingastofnun.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar.