146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[11:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Ég hafði hugsað mér að spyrja aðeins út í málið. Ég hef efasemdir um að hægt verði að tryggja nægilega vel að allir fái sína sanngjörnu málsmeðferð eins og vera ber samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og samkvæmt öðrum mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að.

Því spyr ég hvort framsögumanni sé kunnugt um hvernig málsmeðferð á sér stað hjá Útlendingastofnun þegar hún metur umsóknir fólks frá öruggum löndum, eins og þau eru kölluð, bersýnilega tilhæfulausar. Hefur hún einhverjar tryggingar fyrir því að Útlendingastofnun setji ekki bara stimpil á hvern einasta einstakling sem er með vegabréf frá ákveðnum löndum frekar en að skoða mál þeirra hvert fyrir sig?