146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[11:47]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur fór fyrir þverpólitískri þingmannanefnd sem stóð að heildarendurskoðun útlendingalaga á síðasta kjörtímabili. Þessi heildarendurskoðun var einhver sú stórtækasta í sögu málaflokksins og frumvarpið eitthvert það stærsta og umfangsmesta sem Alþingi hefur tekið fyrir í einu lagi.

Í þeim lögum sem taka gildi nú um áramótin eru m.a. talsvert miklar breytingar á umhverfi hælisleitenda eða umsækjenda um alþjóðlega vernd samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Það kerfi, ef við getum kallað það svo, sá réttarkafli, fjallar um skyldur Íslendinga samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna til að veita hæli fólki sem kemur frá stríðshrjáðum löndum eða býr við ofsóknir vegna trúarbragða, uppruna eða annars samkvæmt skilgreiningum flóttamannasamningsins. Hið svokallaða stuðningskerfi flóttamanna á Íslandi er byggt utan um þennan hóp, þann hóp sem á skilyrðislausan alþjóðlegan rétt á hæli samkvæmt flóttamannasamningnum. Vandi kerfisins hér á landi sem hefur ekki dulist neinum og hefur mikið verið fjallað um er mikil fjölgun umsækjenda sem tekur tíma að afgreiða umsóknir frá og njóta þjónustu á meðan verið er að afgreiða þær. Mikill meiri hluti á Íslandi, þeirra sem sækja um og eru í þessu kerfi, kemur frá löndum sem teljast örugg og eins og kom fram í máli flutningsmanns er algjör undantekning að einstaklingar frá þessum löndum teljist eiga rétt á hæli samkvæmt skilgreiningu flóttamannasamningsins.

Í endurskoðaðri löggjöf sem tekur gildi núna um áramótin er gert ráð fyrir þeim möguleika úrskurðarnefndar kærumála að hafa eins konar flýtimeðferð á ákveðnum sambærilegum umsóknum einstaklinga frá öruggum löndum. Í því tilviki er í lögunum gert ráð fyrir möguleika á undanþágu frá skilyrðislausri frestun réttaráhrifa, þ.e. þegar kemur að endurflutningi fólks meðan á kæru stendur.

Það hefur komið í ljós að í þessum lögum sem eru einhver þau umfangsmestu sem hafa verið sett, og við vissum það fyrir, myndum við þurfa að finna út úr agnúum í lögunum og hugsanlega gera einhverjar breytingar. Í þessu tilfelli er talið þurfa að skerpa á þessu lagaúrræði. Þess vegna er hér farið fram á að þessi undanþága frá reglunum um skilyrðislausa frestun réttaráhrifa gildi áfram til 1. júlí til að hægt verði að aðlaga nýju lögin til að tryggja anda laganna.

Við í Bjartri framtíð munum styðja tillöguna. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur. Það skiptir miklu máli að við stöndum við þá fyrirætlun Alþingis þegar við endurskoðuðum og samþykktum endurskoðuð útlendingalög í vor að við værum að auka réttarbót, að styrkja fylgni okkar við alþjóðlega samninga og mannréttindi. Í því samhengi teljum við mjög mikilvægt að vinna samkvæmt lögunum verði skilvirk án þess að það bitni á mannréttindum og réttindum þeirra sem sækja um vernd.

Það er ekki verið að koma í veg fyrir kærurétt einstaklinga, einungis verið að gefa möguleika á því að réttaráhrifum verði ekki frestað í tilfellum þeirra sem koma frá öruggum löndum.

Við munum styðja þetta frumvarp og hlökkum til og væntum þess að endurskoðun laganna í takt við ætlun þingmannanefndarinnar og Alþingis taki skjótan tíma og verði vonandi komin fyrir Alþingi vel fyrir 1. júlí.