146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[11:53]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Um allan heim býr fólk með vonir, drauma og þrár, frelsisþrá sem oft er ekki hægt að tempra með lögum þótt það sé reynt. Víða um heim hafa lönd sett ýmsar mjög íþyngjandi reglur sem gera fólki það mjög erfitt að flytja milli landa til að láta drauma sína rætast. Staðan í dag er örugglega að mörgu leyti þrengri en hún var fyrir 100 eða 150 árum. Þetta er því miður alþjóðleg þróun.

Það sem hefur gerst er að mörg lönd þessa heims hafa lokað aðaldyrum sínum en þó skilið eftir neyðarglugga sem fólk getur klifrað upp í eftir ákveðnum köðlum. Þetta er þá orðin eina og helsta leið fólks frá sumum svæðum til að flytja milli landa. Það er mjög miður að það sé fyrirkomulagið. Ég er, og ég held við flest hjá Viðreisn, á því að það væri miklu betra fyrirkomulag að hafa aðaldyrnar að þessu húsi opnar en ekki að menn þyrftu að klifra upp kaðal til að komast inn í húsið.

Til sumra landa í heiminum er ekkert erfitt að flytja, eins og Evrópulanda og Norðurlanda, eða frá þeim til Íslands eða annarra þessara landa, en hvað varðar önnur lönd er það miklu erfiðara. Það gildir t.d. um löndin á Balkanskaganum þaðan sem koma margar af þeim umsóknum sem eru efni þessa frumvarps. Þá er spurning hvað maður gerir þegar maður býr í slíku landi og hefur þann draum eða þá þrá að flytja til annars lands, Íslands eða einhvers annars lands. Íslendingar í dag eru með þá löggjöf að ef einhver ætlar að koma hingað til lands í þeim tilgangi að vinna hérna tímabundið þarf sá eða sú að sækja um dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli og það er mjög takmarkað dvalarleyfi. Það veitir fólki ekki rétt til að afla sér réttinda til búsetu og ekki rétt til að taka börn með sér til landsins. Á margan hátt er dvalarleyfi vegna mannúðarástæðna eða alþjóðaverndar miklu betra dvalarleyfi. Það er því ekki óskiljanlegt að margir sækist eftir slíkum dvalarleyfum þótt maður þurfi alls ekki að fullyrða að það gildi um alla sem koma frá þeim löndum.

Með útlendingalögunum sem taka gildi 1. janúar næstkomandi eru ákveðnar breytingar mjög til bóta. Þingið tók þá afstöðu að það ætti að skerpa á umgjörð um alþjóðlega vernd en gera fólki um leið auðveldara fyrir að flytja til landa til að láta drauma sína og þrár rætast. Það er þó alls ekki gengið mjög langt í þeim efnum og erum við þá tiltölulega langt á eftir öðrum þjóðum hvað það varðar. Leyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli telst sem betur fer í raun dvalarleyfi sem er mjög gott en áfram veitir það fólki ekki rétt til að taka fjölskyldu sína með til landsins sem er vonandi eitthvað sem við getum hugsað um að breyta þegar frá líður.

Það eru tveir þættir í þessu. Óneitanlega getur verið svolítið erfitt að þurfa að standa hér og tala fyrir því að glugginn sem þó er leið margra til að koma í landið verði þrengdur. Það er mjög erfitt að horfa á málið og skýra það út með einhverjum öðrum hætti. Við gildistöku nýrra útlendingalaga eru menn í innanríkisráðuneytinu og þeir sem vinna að þessum málum ekki vissir um hvort réttarástandið sem nú ríkir um þessi mál muni gilda áfram eða hvort það myndi skapast réttaróvissa sem gæti leitt í aðra hvora áttina. Það er enginn áhugi á að viðhalda þeirri óvissu. Þess vegna er þetta lagt til. Ég hef ástæðu til að trúa þeim meginskýringum sem þar eru lagðar til grundvallar og við í Viðreisn munum því liðka fyrir framgöngu þessa máls.

En þetta er einungis einn hluti og eins og ég segi munu ný útlendingalög taka gildi 1. janúar næstkomandi. Með þeim lögum er von mín og okkar sú að það verði auðveldara fyrir fólk frá svæðum sem eru á jaðri Evrópu að koma til landsins og láta drauma sína rætast. Ef niðurstaðan og framkvæmd þeirra laga verður sú að það gerist ekki munum við fara í þá vinnu að tryggja að svo verði og treystum á góð bandalög á þingi um það.