146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, flutningsmanni 6. minni hluta fjárlaganefndar, kærlega fyrir ræðuna sem var mjög yfirgripsmikil. Það er hægt að taka undir mjög margt sem hv. þingmaður ræddi af verkefnum sem eru brýn og mikilvæg fyrir samfélagið. Það er svolítið sérstakt að koma aftur inn í þingið og upplifa nýjar aðstæður sem veita líka um leið ákveðin tækifæri. Ég vil sérstaklega fagna því hvernig þingið tekur á ábyrgan hátt á fjárlögunum. Það fá ekki allir allt það sem þeir hefðu viljað sjá, það er einfaldlega þannig, en við reynum þó, allir flokkar, að efna þau mál sem sameinuðu okkur og það eru ekki síst heilbrigðismálin sem allir flokkar lofuðu að reyna að bæta í. Ég fagna því að verið er að taka ákveðin skref þar og ekki síður í menntamálunum, sem skiptir mjög miklu. Ég vil hvetja þann menntamálaráðherra sem verður hér vonandi eftir einhverjar vikur til þess að marka skýra stefnu þannig að framlög miðað við hvern nemanda innan háskólastigsins verði svipuð eða samanburðarhæf og í nágrannaríkjum.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður ræddi m.a. þær skattahækkunartillögur og fleiri tillögur sem voru í svonefndum bandormi, kom aðeins inn á það. Ég vil undirstrika að í þeim bandormi var eitt og annað sem við í Viðreisn vildum gjarnan ræða og hægt er að taka undir, hvort sem við tölum um ákveðin gjöld innan ferðaþjónustunnar eða hvað, en við teljum mikilvægt að það verði gert á heildstæðum grunni.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að ég hjó eftir því að í engum þeirra tillagna sem koma af hálfu Vinstri grænna var rætt um auknar álögur á sjávarútveginn eða aukin gjöld á sjávarútveg: Er það stefna af hálfu Vinstri grænna eða er það kannski yfirsjón af þeirra hálfu að ætla ekki sjávarútveginum að borga aukið gjald fyrir aðganginn að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar?