146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. 6. minni hluta (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að við eigum að gera heildstæða áætlun, sem hefur ekki tekist þrátt fyrir þann aukna ferðamannastraum sem við höfum búið við, það þarf einhvers konar fagmennsku. Í þessu fjárlagafrumvarpi fær Stjórnstöð ferðamála fjármuni og henni eru ætluð verkefni sem Ferðamálastofa, sem er opinbera apparatið, hefur verið með á hendi, verkefnin eru allt í einu tekin og sett í Stjórnstöð ferðamála sem er ekki opinber heldur bara rekstrarfélag. Mér finnst það mjög sérkennilegt. Ég nefndi það í nefndinni að ég teldi að við hefðum átt að taka mark á því sem þar kom fram.

Varðandi samgöngumálin. Ég er ekki sammála því að farið hafi verið offari þegar samgönguáætlun var samþykkt. Það hafði komið fram samgönguáætlun áður sem var örlítið hærri en sú sem var svo lögð fram síðast. Þegar hæstv. innanríkisráðherra var spurð hvers vegna sú áætlun væri lægri þá taldi hún að þetta væri það besta sem hún gæti fjármagnað. Svo kom í ljós þegar ríkisfjármálaáætlun kom fram að það vantaði á þriðja milljarð upp í þáverandi samgönguáætlun. Þegar ríkisfjármálaáætlun kom fram var hún ekki í takt við samgönguáætlun sem hafði þegar komið fram, upp á tæpa 3 milljarða.

Síðan bæta þingmenn við vegna þess að áætlunin var svo ótrúlega léleg að það var eiginlega ekki boðlegt að hafa hana eins og hún var. Ég tek undir það, við höfum talað fyrir komugjöldum og mér finnst bílastæðagjöld vel þess virði að við skoðum þau og auðvitað eigum við að skoða þetta heildstætt.

Svona í lokin, af því að því var hvíslað að mér, þá eru sérstök lög um veiðigjöld. Þau koma því ekki fyrir í bandormi og er ekki breytt nema í lögum um veiðigjöld. Það þarf þá að taka þau fyrir á einhverjum tilteknum tímapunkti í tengslum við fiskveiðiárið.