146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir fína ræðu. Ég þarf að fara að skoða þetta allt saman hjá mér en ég er efnislega sammála mjög mörgu sem hefur komið fram af hálfu Vinstri grænna hér í dag, hvort sem þeir hafa verið að tala um heilbrigðismál eða menntamál. Í þessu andsvari mínu og næsta ætla ég að einblína svolítið á vinnubrögð en ég kem fyrst að menntamálunum.

Ég tek undir að við eigum að setja okkur þessi markmið, setja okkur skýra stefnu um hvernig við ætlum að auka framlög á hvern nemanda þannig að við náum OECD-ríkjunum, vonandi árið 2020 og síðan er hægt að láta sig dreyma að við náum Norðurlandatakmarkinu 2022, 2023 með ábyrgri fjármálastefnu. Ég held að við verðum að setja okkur slík markmið.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um skipulag háskólastigsins. Ég vona að ég hafi skilið hv. þingmann rétt og þá er ég sammála honum um að við þurfum að horfa til skipulags háskólastigsins, annars vegar í þá veru að velta fyrir okkur hvort hægt sé bæði að dýpka og auka samvinnu og hugsanlega sameina háskóla, og það er mín spurning, hvort hv. þingmaður sjái slíkt fyrir sér, og hins vegar að við skoðum leiðir sem m.a. forsvarsmenn háskólanna hafa verið að tala um, og það er náttúrlega pólitísk spurning sem við þurfum að taka í samvinnu og á vettvangi með háskólunum, en það er hvernig við höfum aðganginn að háskólunum. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum hann sem opnastan. En eftir stendur að t.d. annars staðar á Norðurlöndunum er ákveðin takmörkun á aðgangi að háskóla. Fyrir vikið eru framlög á hvern nemanda hærri. Umsóknir í sænsku háskólanna 2008 minnir mig voru 130 þúsund. Það komust síðan 68 þúsund manns inn í sænsku háskólana. Það er önnur aðferðafræði á Norðurlöndunum en hér heima. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt eftir hrunið að við skyldum opna háskólana, auðvelda fólki aðgengi að námi. (Forseti hringir.) Ég held að það hafi verið eitt af lykilatriðum í því að við náðum að efla hér svo margt á síðustu árum. Þess vegna er mín spurning þessi: (Forseti hringir.) Hvað er það nákvæmlega sem hv. þingmaður meinar þegar talað er um að huga að skipulagi háskólastigsins?