146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:09]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál var lagt upp með að treysta umgjörð opinberra fjármála og innleiða meiri aga í áætlunargerð með áherslu á langtímastöðugleika í efnahagslífinu. Og þó svo að við séum í 2. umr. fjárlaga, þegar frumvarpið hefur einungis verið í þinglegri meðferð í rétt rúmar tvær vikur, verður að koma fram í upphafi máls míns að fjárlaganefnd hefur heilt yfir unnið mikið og gott starf undir mjög svo óvenjulegum kringumstæðum.

Aðalatriðið er að öll meginmarkmið ríkisfjármálaáætlunarinnar frá því síðasta vor halda. Áfram er gert ráð fyrir afgangi á fjárlögum sem nemur allt að 1% af landsframleiðslu. Áfram er gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs á næsta ári í takt við áætlanir um skuldaviðmið. Og áfram er gert ráð fyrir vexti og eflingu grunnþjónustunnar og auknum fjárfestingum í mikilvæga samfélagslega innviði, eins og samgöngur.

Öll þessi grundvallaratriði ríkisfjármálanna, sem eru undirliggjandi í því frumvarpi sem hér um ræðir, sýna fram á svo ekki verður um villst að við erum á réttri leið, við fetum okkur örugglega fram veginn.

Það er annað sem verður að hafa í huga í þessari umræðu, þær efnahagsaðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Efnahagslífið markar þann ramma sem fjárreiður hins opinbera verða að rúmast innan. Aðstæður núna eru um margt ákjósanlegar og flestir hagvísar benda í rétta átt. Við erum líka með frumvarp til fjárlaga þar sem tekjur ríkisins milli ára aukast mjög mikið samhliða miklum vexti í útgjöldum á eiginlega öllum sviðum. Hér er lítil verðbólga, hagvöxtur er verulegur og kaupmáttaraukning almennings hefur verið töluverð á undanförnum misserum. Til viðbótar eru erlendar skuldir þjóðarbúsins eiginlega orðnar engar og það er myndarlegur afgangur í viðskiptum okkar við útlönd. Þetta eru allt saman mjög jákvæð tíðindi.

Þó að vegurinn fram undan sé tiltölulega beinn og breiður bíða okkar vissulega ýmsar áskoranir, rétt eins og aksturinn verður þeim mun erfiðari eftir því sem hraðinn á bifreiðinni eykst. Vaxtastigið í landinu er hátt, framleiðsluspenna er í hagkerfinu í kjölfar verulegra launahækkana að undanförnu og sterkt gengi krónunnar setur verulegan þrýsting á alla framleiðslu í landinu. Þessu öllu til viðbótar, frú forseti, er órói á vinnumarkaði sem sést kannski einna best á því að verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í eina viku. Það eru grafalvarleg tíðindi og verkfallið mun fljótlega valda samfélaginu ómældu tjóni og hefur þegar valdið margvíslegum búsifjum um land allt.

Með þessi viðvörunarmerki fyrir framan okkur er ekki í boði að við förum nú að missa tökin á ríkisfjármálunum. Ég heyri í þessari umræðu marga ágæta hv. þingmenn koma hingað upp og fjalla um hvar þurfi að bæta í, auka útgjöld, hvar þurfi að efla þetta og auka hitt. Ég held satt best að segja að það sé enginn liður í fjárlagafrumvarpinu, ef marka má umræðuna, sem ekki virðist liggja óbættur hjá garði. Þetta er alveg örugglega hárrétt. Ég ætla ekki að mæla gegn því að örugglega þurfi að setja meira fé í góð málefni á öllum sviðum.

Ég vara hins vegar við því að við förum fram úr okkur og eyðum um efni fram. Ef við þenjum útgjöld ríkisins viðstöðulaust á sama tíma og tekjurnar hækka munum við lenda í miklum ógöngum þegar tekjurnar dragast saman. Þær munu á einhverjum tímapunkti í framtíðinni dragast saman, það mun slakna á framleiðsluspennunni í hagkerfinu. Sér í lagi verða vandræðin mikil ef uppgangstímabilið sem við búum við núna er ekki nýtt til að greiða niður skuldir ríkisins. Sem betur fer erum við á þeirri áætlun, að greiða niður skuldir ríkisins og við þurfum að halda því áfram.

Svo telja sumir að lausnin á öllu saman sé að hækka skatta, auka tekjurnar, berjast fyrir meiri peningum, eins og einn hv. þingmaður sagði fyrr í dag. Það þurfi bara að hækka skatta nægjanlega mikið svo hægt verði að gera allt fyrir alla. Tiltölulega einfalt mál. Ég segi: Það er einn hængur á þeirri lausn, eitt sem er að þeirri stórkostlegu lausn — hún virkar ekki. Hún virkar ekki svona. Hærri skattar draga úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu og það leiðir á endanum til þess að tekjur ríkisins minnka. Við höfum nú þegar, því miður, enn of háa skatta á fólk og fyrirtæki. Nú þegar eru umsvif hins opinbera í hagkerfinu veruleg, sérstaklega ef við horfum til að mynda til hlutfalls af landsframleiðslu. Ef við göngum lengra þrengjum við einfaldlega að framleiðslunni, þrengjum að atvinnulífinu. Það dregur líka úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og alþjóðlegum viðskiptum og það endar hreinlega á þann veg að við verðum fátækari fyrir vikið.

Hvað er þá til ráða til að mæta öllum þessum kröfum um að auka, stækka, efla og bæta? Við förum ekki að stórauka útgjöldin að vild, umfram það sem þegar hefur reyndar verið lagt upp með í nefndaráliti fjárlaganefndar. Við getum heldur ekki hækkað skatta til að auka tekjurnar því að það leiðir í rauninni til þess að tekjurnar minnka. Það sem er til ráða er einfaldlega að fylgja þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð, kemur m.a. fram í ríkisfjármálaáætlun frá því síðasta vor og þetta fjárlagafrumvarp byggir á, sem er að bæta hægt og rólega, stig af stigi, afkomu ríkissjóðs, greiða niður skuldirnar, draga þannig úr vaxtagjöldum og þannig myndum við frekara svigrúm til að bæta rekstur ríkisins og mæta fjárfestingarþörfinni.

Slík ábyrgð í ríkisfjármálum stuðlar þannig einna best að stöðugleika í efnahagslífinu, ýtir undir raunverulega framleiðniaukningu og frekari verðmætasköpun. Þetta er sú forsenda sem þarf að liggja til grundvallar til að við getum haldið áfram að byggja upp velferðarkerfið.

Svo er það annar kafli, frú forseti, í þessari umræðu, þ.e. hvernig við ráðstöfum því fé sem ríkissjóður hefur yfir að ráða. Hvernig eigum við að forgangsraða takmörkuðum fjármunum? Þær breytingartillögur frá hv. fjárlaganefnd sem liggja fyrir gefa okkur góða vísbendingu um hvernig hægt er að ná breiðri samstöðu um forgangsröðun innan þess svigrúms sem taldist skynsamlegt að ráðstafa. Tillögurnar frá hv. fjárlaganefnd miða heilt yfir að því að efla löggæslu, menntakerfið, samgöngur og síðast en ekki síst heilbrigðiskerfið. Samhliða er gripið til tiltekinna ráðstafana á tekjuhliðinni og dregið er úr framlögum í öðrum þáttum. Ég tel að nefndin hafi unnið vel og haft réttu atriðin að leiðarljósi. Ég vil líka nefna, tek það sérstaklega fram, þegar við ræðum um forgangsröðun á takmörkuðum fjármunum að við höfum ávallt í huga að sameiginlegir sjóðir okkar landsmanna verða að nýtast öllum landsmönnum hvar sem er á landinu, að fólki sé ekki mismunað eftir búsetu þegar kemur að því að veita grunnþjónustu ríkisins eða styrkja mikilvæga samfélagslega innviði. Þetta á við málaflokka eins og ég kom inn á áðan, samgöngur, menntamál og heilbrigðismál. Af þeim sökum er ánægjulegt að sjá að samstaða er um mikilvægar framkvæmdir, eins og Dýrafjarðargöng sem er mjög mikilvæg framkvæmd, ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur landsmenn alla, treystir búsetuskilyrði og treystir öll skilyrði fyrir frekari atvinnuuppbyggingu sem kemur öllum landsmönnum til góða. Ég nefni líka uppbyggingu hjúkrunarheimila og styrkingu á heilbrigðisþjónustu víðs vegar um landið, viðbótarframlag til löggæslu og menntastofnana, eins og framhaldsskóla og háskóla, sem og nýrra verkefna á því sviði, t.d. starfsemi lýðháskóla og annarra rannsóknarverkefna. Þetta er mikilvægur þáttur í því að treysta búsetuskilyrði og styðja við atvinnuuppbyggingu víðs vegar um landið.

Að lokum, stundum er haft á orði að munurinn á milli vinstri og hægri manna sé sá að vinstri menn vilji að ríkið sé svo öflugt að það geti gert allt fyrir alla á meðan kannski hægri menn óttast einmitt að svo öflugt ríki geti auðveldlega tekið allt af fólki. Það má kannski heimfæra þetta að einhverju leyti upp á umræður um fjárlagafrumvarpið og kannski hugmyndafræðilegan afstöðumun milli þingmanna. Hættan er nefnilega sú að ef við föllum í þá freistni að ætla að gera allt fyrir alla verður það allt saman hrifsað jafnskjótt af fólki vegna efnahagslegs óstöðugleika og kjararýrnunar sem er óumflýjanleg.

Þær aðstæður sem eru uppi núna í ríkisfjármálum, á vinnumarkaði og í efnahagslífinu í heild eru með þeim hætti að þær setja verulegan þrýsting á okkur þingmenn að afgreiða fjárlög næsta árs af skynsemi og ábyrgð. Ég tel að frumvarpið eins og það liggur fyrir nú miði ágætlega að því.