146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndarfólki í fjárlaganefnd fyrir vinnu þess við afgreiðslu á breytingum á fjárlögum fyrir árið 2017 enda vann nefndarfólk í fjárlaganefnd vinnuna við einstakar pólitískar aðstæður. Eins og við vitum er fjárlagafrumvarp alla jafna pólitískasta plagg hverrar ríkisstjórnar og þrátt fyrir að við búum við þær einstöku aðstæður að í þinginu er hvorki stjórnarmeirihluti né minni hluti er þetta fjárlagafrumvarp vissulega pólitískt þrátt fyrir að það sé lagt fram af starfsstjórn sem styðst ekki við meiri hluta á Alþingi. Hér er vissulega að finna efnahagsstefnu fráfarandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks því að fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög hvers árs eru, eins og ég sagði, mikilvægustu, pólitískustu stefnumörkunarskjöl stjórnvalda hvers tíma og áhersla viðkomandi ríkisstjórna sem sker úr um hvort í samfélaginu ríki jöfnuður og félagslegt öryggi.

Það er vissulega fagnaðarefni við þessar aðstæður að þingmenn hafi náð samkomulagi um að þoka útgjaldabreytingum í stór þjóðþrifamál. Meginniðurstaðan hér er sú að tekist hefur samkomulag um mikilvægar viðbætur til heilbrigðismála, menntakerfis og samgöngumála. Ég þakka fjárlaganefndarfólki fyrir að ná þeirri sátt um áherslur.

Ég vil líka þakka sérstaklega fyrir það að sátt náðist um aukið framlag til skatteftirlits og skattrannsókna sem mikil krafa hefur verið uppi um í samfélaginu og ekki að ósekju í kjölfar upplýsinga sem fram komu í Panama-skjölunum. Með því samkomulagi meðal fulltrúa ólíkra og að ýmsu leyti andstæðra stjórnmálaafla í fjárlaganefnd um innihald breytingartillagna fjárlaganefndar sýndu þingmenn að við erum tilbúin til að gangast við ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu og málamiðlun var nauðsynleg við ríkjandi aðstæður.

Að sjálfsögðu nær vinna fjárlaganefndar og samkomulag innan hennar um meginatriði í helstu málaflokkum ekki yfir ýtrustu kröfur og megináherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hefði kosið að leggja sterkari og afdráttarlausari áherslur í samræmi við stefnu flokksins í fjármálum ríkisins og samfélagsmálum en tök voru á að þessu sinni. En hér hafa allir flokkar þurft að gefa eftir sínar ýtrustu kröfur og sérstakar aðstæður kalla á málamiðlanir allra flokka. Það er óskandi að þegar ný ríkisstjórn verður mynduð muni sú ríkisstjórn sýna kjark, dug og þor til að taka myndarlegar ákvarðanir í mest aðkallandi málaflokkunum er varða hag okkar allra, jafnan rétt hvers og eins til bestu hugsanlegu þjónustu þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og velferðarkerfinu en ekki síst þegar kemur að loftslagsmálunum og umhverfismálunum, þróunarsamvinnu og í málefnum flóttamanna.

Ég get ekki látið þess ófreistað að benda á nokkur vonbrigði sem finna má í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2017. Það er til að mynda aðkallandi þörf fyrir faglegri viðbrögð við þeirri þenslu sem ríkir nú í íslensku efnahagskerfi. Fáum getur dulist að knýjandi þörf er fyrir alvöruefnahagsráðstafanir sem taka mið af þeim miklu og skýru þenslumerkjum sem nú eru uppi í hagkerfinu og munu valda ómældum vanda ef ekki verður tekið á þeim af festu. Það mun hægja verulega á hagvextinum á næstu árum samkvæmt efnahagsspá Hagstofunnar sem birt var í nóvember sl. Og við sjáum víða skýr og sígild þenslumerki, þaninn fasteignamarkað, spennu á vinnumarkaði og stóraukinn innflutning sem birtist í tæpum 100 milljarða vöruskiptajöfnuði á þessu ári sem umfangsmikil þjónustuviðskipti ferðaþjónustunnar vega upp. Fleiri merki valda áhyggjum, eins og það að grundvöllurinn fyrir lægri verðbólgu skýrist að stærstum hluta af lækkandi olíuverði og hrávöruverði á heimsvísu.

Við þessar viðkvæmu aðstæður reynir á ábyrga stjórn ríkisfjármála. Stór, ef ekki stærsti, hagstjórnarlegi ábyrgðarhluti þeirra sem stýra munu ríkisfjármálunum á næstu árum er ekki bara að greiða samviskusamlega niður skuldir ríkissjóðs, heldur að gera allt sem hægt er til að mynda eins mikinn afgang af ríkissjóði til að geta staðið undir þeim ábyrgðarverkefnum sem falla á ríkið sjálft. Þau verkefni snúast um að stýra nauðsynlegum fjármunum okkar inn í forgangsmál okkar allra, sem eru heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, samgöngumál og umhverfismál. Því miður er ekki að finna ráðstafanir til að slá á þensluna með afgerandi hætti í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Svo er það, líkt og undirrituð hefur bent á áður, að stóru málin er varða ekki bara okkur öll hér á landi heldur ábyrgð okkar á alþjóðavísu, loftslagsmálin og umhverfismálin eru verulega vanrækt í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2017. Ábyrg stjórnvöld þurfa nefnilega að setja sér trúverðuga og metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og ekki bara það, heldur þurfa ábyrg stjórnvöld að standa við áætlunina með viðunandi fjárútlátum sem eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar á borð við hið sögulega Parísarsamkomulag.

Það er ekki nóg að halda fallegar ræður og texta, heldur þarf kné að fylgja kviði og það þarf að merkja fjármuni til að fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum.

Í nýlegri skýrslu OECD frá árinu 2014 um árangur Íslands í umhverfismálum kemur fram að kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar eru almennt lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Og í enn nýrri skýrslu OECD er kolefnisgjaldið á alþjóðavísu um 80% of lágt til þess að hafa tilætluð áhrif til að draga úr útblæstri. Staðan í umhverfismálum hér á landi er þannig að mikilvægt er að auka fé til umhverfisrannsókna, náttúruverndar og miðlunar upplýsinga um umhverfismál. Það er miður að loftslagsmálin og umhverfismálin hafi ekki verið meðal þeirra málasviða sem samkomulag varð um að leggja áherslu á í starfi fjárlaganefndar núna, í desember 2016. Því er alveg ljóst að loftslags- og umhverfismálin eru meðal mikilvægustu úrlausnarefna nýrrar ríkisstjórnar og óskandi að sú ríkisstjórn sem taka mun við völdum leggi meiri áherslu á þá mikilvægu málaflokka en gert er í núverandi fjárlagafrumvarpi.

En aftur að því samkomulagi sem náðist og þeim málefnasviðum sem þar náðist samstaða um, þ.e. heilbrigðismálin, menntamálin, samgöngumálin og löggæslu- og öryggismálin. Í þeim málaflokkum má finna veigamestu breytingar fjárlaganefndar og er það vel. Vinstri hreyfingin – grænt framboð lýsir eindregnum stuðningi við þær breytingartillögur sem lagðar eru fram til að bæta stöðu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Hér er vissulega ekki allur vandi leystur en þessar viðbætur eru mikilvægt skref til að rétta af aðkallandi vanda heilbrigðis- og menntastofnana.

Eins og við vitum öll hefur því miður ríkt mikið ósætti í samfélaginu vegna hrakandi stöðu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Tekur Vinstri hreyfingin – grænt framboð undir kröfu þeirra 86.000 einstaklinga sem hafa með undirskrift sinni krafist þess að framlög til heilbrigðismála verði 11% af vergri landsframleiðslu á ári hverju og verði þannig sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Í málefnum heilbrigðisþjónustunnar vegur fjárþörf og bág staða Landspítalans þar afar þungt og því eru aukin fjárframlög til þjóðarsjúkrahússins í breytingartillögum fjárlaganefndar til bóta þó að ekki séu þau nægileg til að mæta að fullu þeirri knýjandi þörf sem stjórnendur spítalans hafa haft uppi. Þjóðarsjúkrahúsið heldur því sjó í stað þess að bæta í. Fjármuni vantar enn til að raunveruleg uppbygging geti hafist. Varðandi aðrar heilbrigðisstofnanir og framlög til þeirra er vissulega ekki nóg að gert í tillögum fjárlaganefndar þótt ánægjulegt sé að samstaða hafi náðst um einhver skref í þá átt.

Þegar kemur að viðbótum í skólamálin er vissulega hægt að fagna því að bætt er við fjárframlögum til skólakerfisins alls, bæði framhaldsskólastigsins og háskólastigsins og er það vel. Hins vegar þarf að taka markvissari skref í átt að því að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD og í kjölfarið verði þau hækkuð þannig að Ísland standi jafnfætis öðrum Norðurlöndum í takt við samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs. Vonast ég enn á ný til þess að ný ríkisstjórn geri betur en sjá má í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 sem og í breytingartillögum fjárlaganefndar þótt góðar séu.

Varðandi málefni framhaldsskólanna er mikilvægt að framhaldsskólar verði aftur opnir öllum, ekki aðeins þeim sem yngri eru en 25 ára. Auka þarf framlög með hverjum nemanda án þess að horfið sé til aðgerða sem eru fjöldatakmarkanir í reynd. Tryggja þarf faglegt sjálfstæði framhaldsskólanna og gera minni skólum úti um allt land kleift að hafa fjölbreytt námsframboð. 400 milljónir sem fjárlaganefnd bætir við í tillögum sínum eru vissulega bót í máli til að ná þeim markmiðum en gera þarf betur.

Þegar kemur að viðbótum til samgöngumála upp á 4,5 milljarða eru þær vissulega mikilvægar þó að fjarri sé að þær dugi til að fjármagna samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu. Þörfin er vissulega brýn til að gera betur þegar kemur að nauðsynlegu viðhaldi og nauðsynlegri uppbyggingu vegakerfis landsins sem hefur mátt þola fjársvelti með tilheyrandi hættum á tímum aukins álags á vegakerfið um allt land. Þar hefur aukinn ferðamannastraumur um landið haft sitt að segja um hið aukna álag, ekki síst í fámennum umdæmum sem fá hundruð þúsunda gesta til sín á ári hverju.

Meiri umferð á vegum landsins og skortur á viðhaldi vega síðustu árin veldur einnig fleiri umferðarslysum en áður, því miður, með tilheyrandi álagi fyrir lögregluna um allt land. Það er því afar brýnt að fjármagna að fullu samgönguáætlun til fjögurra ára, sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust haustið 2016, sem fól í sér að verja skyldi allt að 100 milljörðum kr. til samgöngubóta á gildistíma hennar. Það er mat fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að fjárþörf til þessa málaflokks sé að lágmarki 13 milljarðar. Það er þó mat okkar að samkomulagið sem náðst hefur um að takast á við allra brýnustu verkefnin í samgöngumálum nú sé þess eðlis að unnt sé að veita því brautargengi.

Því ber líka að fagna að ákveðnar viðbætur eru lagðar til í skatteftirlit og skattrannsóknir sem er, eins og áður segir, mikilvægt skref í að taka á þeirri meinsemd sem skattundanskot eru í samfélaginu. Því er brýnt að styrkja þær stofnanir ríkisins sem fara með skatteftirlit og efla þær til rannsókna og viðbragða við skattsvikum. Rétt hefði verið að taka fastar á þessum málum og auka fjárveitingar enn meira til þeirra en raunin er, þótt vissulega beri að fagna þeim viðbótum sem fást í málaflokkinn í 2. umr.

Íslenska ríkið á að taka þátt í þróunarsamvinnu með myndarlegum hætti og stórauka framlög til málaflokksins til samræmis við markmið Sameinuðu þjóðanna þannig að þau verði 0,7% af vergri landsframleiðslu. Íslensk stjórnvöld styðja þetta markmið í orði en sýna það ekki í verki því að framlög Íslands eru nú einungis 0,25% af vergri landsframleiðslu og hækkun sem stefnt er að til ársins 2021 er óveruleg. Við þurfum að hverfa frá stefnu metnaðarleysis í þeim málaflokki og gera mun betur á tímum þegar Sameinuðu þjóðirnar hafa uppi sögulegt ákall til þjóða heims um að gera betur þegar kemur að mannúðaraðstoð á tímum mikilla stríðsátaka og veðurbrigða á borð við ógnvænlega þurrka, vatnsskort og uppskerubrest sem þýðir gríðarlega fólksflutninga sem varla eru fordæmi um áður í mannkynssögunni. Í þessum efnum þurfum við hér á landi svo innilega að standa plikt okkar þegar kemur að framlagi á alþjóðavísu. Okkur ber siðferðileg skylda til að leggja okkar af mörkum sem siðmenntuð og efnuð þjóð.

Í janúar 2017 er von á 47 flóttamönnum frá Sýrlandi sem eru hluti af þeim 103 flóttamönnum sem stjórnvöld ákváðu í september 2015 að taka á móti að beiðni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það veldur verulegum áhyggjum að í fjárlagafrumvarpið vantar fjármagn til móttöku þeirra. Umræddir einstaklingar munu eignast nýtt heimili hér á landi og því ber nauðsyn til að þeim fylgi tilteknir fjármunir til þeirra sveitarfélaga sem fá þá til sín. Fjölskyldurnar sem koma eru níu talsins og flytja í þrjú sveitarfélög sem öll gera ráð fyrir þessu framlagi. Ráða verður fram úr því máli hið fyrsta og gera sveitarfélögum kleift að taka á móti sýrlensku fjölskyldunum með sama hætti og gert hefur verið hingað til.

Bæta þarf úr málefnum hælisleitenda hérlendis og jafna aðstæður þeirra og svokallaðra kvótaflóttamanna þegar kemur að aðlögun að samfélaginu eftir að hæli hefur verið veitt. Mikilvægt er að tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga sem taka gildi nú um áramótin með nægu fjármagni og mannafla.

Það er ósk mín, virðulegi forseti, og ég held ég geti fullyrt að ég tali fyrir munn margra félaga minna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að ný ríkisstjórn geri betur en sjá má í fjárlögum fyrir árið 2017 í ýmsum málaflokkum er snerta okkur öll, en um leið fagna ég þeirri samstöðu um bætingu í nauðsynlega málaflokka í þeim skrefum og ákvörðunum sem tekin voru af nefndarfólki í fjárlaganefnd. Því styð ég þær breytingartillögur sem gerðar voru af hálfu þess og óska þess svo að ný ríkisstjórn bæti um betur.