146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir orð hennar og gagnrýni á þennan málshraða, en eins og ég sagði áðan þá búum við við einstakar pólitískar aðstæður og vinna í fjárlaganefnd sem alla jafna tekur um einn og hálfan til tvo mánuði er hér unnin á tveimur vikum undir miklu álagi og á miklum hraða. Eins og ég gat um í upphafi var lögð á það áhersla að reyna að ná sátt um stóru málaflokkana, þ.e. heilbrigðismálin, velferðarmálin, menntamálin og svo samgöngumálin. Ég tek undir orð hennar um að við hefðum viljað sjá meira gert í öðrum málaflokkum. Ég kom inn á það varðandi þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð að við þurfum svo sannarlega að gera miklu betur en kveður á um í fjárlögum fyrir árið 2017. Mér finnst það hreinlega skammarlegt hvernig íslenska ríkið stendur sig í þessum efnum. Mér finnst skammarlegt að við skulum ekki auka við þróunarsamvinnuframlag okkar þegar um er að ræða sögulegt ákall Sameinuðu þjóðanna til allra þjóða heims um að auka mannúðaraðstoð sína vegna stríðsátaka, þurrka og fólksflutninga. Við stöndum ekki okkar plikt í alþjóðlegu samstarfi þegar kemur að þessu.

Varðandi flóttamenn og hælisleitendur þá tek ég líka undir orð þingmannsins um að við þurfum að bregðast við. Við þurfum að axla ábyrgð okkar í alþjóðasamfélaginu þegar kemur að móttöku hælisleitenda, ekki bara móttöku heldur málefnum útlendinga yfir höfuð. Við þurfum að bjóða hingað umtalsvert fleirum en nú er gert. Við þurfum að auka fjármuni í þennan málaflokk. Ég vonast innilega til þess að ný ríkisstjórn, hvenær sem hún verður mynduð, muni gera mun betur í þeim málaflokki en nú er gert.