146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var um margt áhugaverð. Ég tek eftir að hv. þingmaður talar um ný vinnubrögð við þessa fjárlagagerð, og ég tek undir með hv. þingmanni að núna erum við að vinna þessa vinnu á miklum hlaupum og óþarflega miklum að mínu mati. Mér finnst einmitt eins og við séum akkúrat núna að redda okkur fyrir horn og redda okkur fyrir jólahorn þar sem við virðumst ætla að arka af stað í jólafrí, helst í dag, í stað þess að skoða almennilega hvað raunverulega felst í þessu samkomulagi. Því að ég þori að veðja nokkrum skildingum að allir þeir sem hér sitja og munu greiða atkvæði með eða á móti þessu máli munu ekki vita fullkomlega um hvað þeir eru að greiða atkvæði.

Ný vinnubrögð, vissulega. En nú vaknar efi um hvort rétt sé að málum staðið. Hvort við séum raunverulega með þessu svokallaða þverpólitíska samkomulagi að ná fram öllu því sem við teljum okkur vera að ná fram. Mér finnst við ekki hafa skoðað þetta nógu vel og tryggt nógu vel, sérstaklega rekstrargrundvöll Landspítalans. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er hann viss um að fjárlagafrumvarpið muni duga til þess að tryggja að Landspítalinn þurfi ekki að ráðast í niðurskurð? Til þess að tryggja að Landspítalinn þurfi ekki að byrja að segja fólki upp störfum eftir áramót?