146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:19]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni Óttari Proppé áhugaverða ræðu. Ég er einn af þessum illræmdu nýliðum hér í sal og velti fyrir mér heilbrigðismálum sérstaklega. Heilbrigðismálin eru þau mál sem þorri Íslendinga setti í forgang fyrir síðustu kosningar. Ég er ekki frá því að atkvæðum fólks hafi verið ráðstafað eftir því hvernig loforð flokkarnir gáfu í þeim málaflokki.

Á heimasíðu Bjartrar framtíðar stendur, og nú ætla ég að biðja hv. þingmann að útlista þetta örlítið fyrir mér:

„Opnum meira fyrir fjölbreytileg rekstrar- og þjónustuform í velferðarkerfinu og ólíka skólastarfsemi“ — ég er reyndar ekki að spyrja um hana núna, fyrst og fremst velferðarkerfið — „nýjar hugmyndir svo fólk hafi meira val, sem er gott fyrir alla.“

„Skandinavar hafa verið að gera þetta, með góðum árangri. Og athugið:“ — Ég biðst forláts, virðulegur forseti, ég fer hér með beinar tilvitnanir og gleymdi að biðja um leyfi fyrir því. — „Aukin fjölbreytni í rekstri, nýjar lausnir, merkir ekki að aðgangur fólks að þjónustunni eigi ekki að vera áfram jafn. Það er lykilatriði.“

Nú eru blikur á lofti. (Forseti hringir.) Landspítali – háskólasjúkrahús, reksturinn þar er í járnum. Einkarekstur sækir í sig veðrið. Hver er stefna Bjartrar framtíðar varðandi einkarekstur í heilbrigðiskerfi?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. ræðumenn á að virða tímamörk.)