146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:54]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy ræðu sem hann flutti hér snöfurmannlega eins og við var að búast. Mig langar að spyrja hann aðeins út í þann hluta fjárlaga sem snýr að landbúnaðarmálum. Nú varð uppi fótur og fit í sumar þegar nýr búvörusamningur var samþykktur. Ekki voru allir sáttir við hann. Ekki heldur þeir sem að honum eiga beina aðkomu, allir bændur. Það var misjafnt eftir því hvaða búskap þeir stunda. Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða hugmyndir hann hafi um aðgerðir til að styðja við bakið á garðyrkjubændum. Nú er það grænn atvinnuvegur, svo vægt sé til orða tekið. Því þætti mér athyglisvert að heyra í hv. þingmanni, ekki síst í ljósi þess að nú hefur verið ákveðið að veita 100 milljónir í sérstakt söluátak til að koma íslensku lambi ofan í útlenska maga. Því þætti mér gott að heyra nokkur orð frá hv. þingmanni um afstöðu hans til þessara mála.