146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:56]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er mjög áhugavert mál. Mér þykir afskaplega gaman að hugsa til garðyrkjubænda. Ég er sérstakur áhugamaður um uppbyggingu svokallaðra kálvera sem myndu þá vera nokkurs konar stóriðja í grænmetisrækt. En það er margt sem þarf að gera til að bæta aðbúnað garðyrkjubænda, ekki síst það að tryggja betri matvælamerkingar, að upprunastaður sé skýr en ekki jafn óskýr og hann er í dag. En líka að fullnægjandi og viðunandi næringargildi og þess háttar komi fram. Það er hitt sem snýr miklu frekar að fjárlögunum, að þar mætti gera betur í því. Það kemur kannski til kasta okkar á þinginu þegar búvörusamningar verða endurskoðaðir, að fara hreinlega í að niðurgreiða rafmagnskostnað til garðyrkjubænda töluvert meira en hefur verið gert. Enda er töluvert meiri rafmagnsframleiðsla á landinu en þörf er á raunverulega, alla vega uppsett geta. Ef við færum í þá vegferð að ákveða að þjóðhagslegir hagsmunir séu af því að hafa góðan mat gætum við fengið ágætisniðurstöðu í því.