146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:58]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðu hans. Það var einkar áhugavert að hlusta á það sem hann hafði að segja um heilbrigðiskerfið og líka jákvætt, þar sem ég hef kannast við hv. þingmann í nokkuð mörg ár, að sjá hversu fljótur hann er að tileinka sér áratuga gömul vinnubrögð í fjárlagavinnunni.

En það sem ég hef áhuga á að fá að heyra aðeins betur frá hv. þingmanni er hvernig hann sér fyrir sér að leysa þau vandamál sem hv. þingmaður fór í gegnum í ræðunni. Margir þeirra sem sinna t.d. geðheilbrigðisþjónustu eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar, sálfræðingar og geðlæknar. Telur hv. þingmaður að það sé þá besta leiðin til að leysa það að auka fjárveitingu til Landspítalans? Eða væri ástæða til þess frekar að setja sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið, þannig að það væri þá réttara að eyrnamerkja þá fjármuni sjúkratryggingum til að hægt væri að stuðla að því? Og telur hv. þingmaður ekki rétt að það séu sjálfstætt starfandi sérfræðingar, sem mætti nefna að séu þá í einkarekstri, sem sinni þeirri mikilvægu þjónustu?

Síðan stoppa ég eilítið við áhersluna sem snýr að Landspítalanum. Nú er hv. þingmaður með mikil og náin tengsl fyrir Suðurkjördæmi. Ég veit að þar hafa íbúarnir mjög kallað eftir því að fá aukna fjármuni og bæta heilbrigðisþjónustuna á því svæði. Þar eru öflugar og góðar stofnanir sem hafa verið að sinna síauknum verkefnum sem tengjast m.a. fjölgun ferðamanna og vilja að sjálfsögðu halda áfram að sinna íbúunum vel. Mér skildist að m.a. væri ætlunin að nýta þá fjármuni til að forgangsraða (Forseti hringir.) hringinn í kringum landið í hinar ólíku heilbrigðisstofnanir sem við höfum.