146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir afskaplega góðar spurningar. Það er kannski réttast að hugsa þetta út frá þeirri forgangsröðun, svo ég taki seinni spurninguna fyrst, sem hefur legið fyrir hjá landlækni. Að fyrst skuli miða að því að byggja upp heilbrigðisstofnanir úti á landi og svo heilsugæslur úti um allt land, ekki bara úti á landi heldur líka á höfuðborgarsvæðinu, og taka síðan í þriðja stað Landspítalann – háskólasjúkrahús.

En auðvitað þurfa þessir hlutir að eiga sér stað nokkurn veginn samtímis. Heilbrigðisstofnunin á Höfn í Hornafirði, svo maður tali um Suðurkjördæmið, er rosalega vel rekin en skilaði því miður 14 milljarða kr. halla á síðasta ári. Það má gera miklu betur í þessum hlutum þó svo að verið sé að vinna rosalega góða vinnu á Höfn.

Hvað varðar geðheilbrigðismálin er það svolítið flókið en ég held að ég vilji ganga út frá því að þeir peningar fari fyrst og fremst í sjúkratryggingar til þess að styðja þá sálfræðinga sem nú eru sjálfstætt starfandi frekar en að taka það allt saman inn í opinbera kerfið. Fyrst og fremst vegna þess að sú hefð hefur skapast. Kannski er með tíð og tíma hægt að byggja þetta betur inn í opinbera heilbrigðiskerfið, en það ætti að vera hægt að gera þetta alla vega til bráðabirgða með því að nota það kerfi sem til er fyrir.