146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. 5. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil ítreka að það hvernig hæstv. formaður nefndarinnar hefur talað í lokaræðu sinni hefur einkennt störf nefndarinnar og endurspeglar hvernig við unnum á mjög málefnalegum nótum. Allir, hver einn og einasti flokkur, teygðu sig mjög langt í að ná sátt. Ég ætla ekkert að draga úr því. Það er gott að ítreka hversu merkilegt þetta var í rauninni. Það var stungið upp á atriðum í nefndinni sem gerðu að verkum að það bara datt andlitið af mér, ég hefði ekki búist við því frá viðkomandi flokksmanni því það var ekki eitthvað sem maður hefði búist við miðað við flokkspólitíkina. Menn teygðu sig það langt í því að reyna að ná sáttalausn. Það þurfti ekki að grípa til þeirra ráða sem kannski var ánægjulegt fyrir viðkomandi, en það að hæstv. formaður nefndarinnar, sem ég er að tala um hérna, sýndi þá viðleitni setti í raun tóninn fyrir þessa vinnu.