146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[19:07]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp til fjáraukalaga sem nú er til umfjöllunar. Ég get sagt að ég tek undir margt það sem hv. þingmenn og félagar mínir í fjárlaganefnd hafa áður sagt. Ég get m.a. tekið undir það af heilum hug að málshraðinn var gríðarlega mikill og ekki til fyrirmyndar, en á grundvelli trausts á meðal nefndarmanna og lausnamiðaðrar nálgunar á verkefnið náðum við að klára þetta saman og ég er afar stolt af því.

Varðandi verklagið til lengri tíma litið hafa þingmenn nefnt hér að skilgreiningin á óvæntum útgjöldum getur verið ansi teygjanleg. Ég tel að ný lög um opinber fjármál sem hafa verið til umræðu hér í dag um fjáraukann og líka fjárlögin muni bæta úr þessu til lengri tíma litið. Tilgangur og markmið laga um opinber fjármál er að auka gegnsæið, auka agann og þá yfirsýn sem við þurfum að hafa til að meta þörf á útgjöldum þannig að ég tel að óhjákvæmilega muni verklagið batna samhliða. Að þessu sinni erum við svolítið að máta okkur við þessi nýju lög og þetta nýja verklag, fyrir utan hraðann eins og okkur verður tíðrætt um, þannig að þetta er reynsla sem við munum öll búa að næst þegar við förum í þessa vinnu. Við erum reynslunni ríkari.

Varðandi breytingartillögur 1. minni hluta vil ég fara stuttlega yfir tekjubreytingarnar á frumvarpinu. Þar munar langmest um 27 milljarða kr. hækkun arðgreiðslna í kjölfar samþykktar hluthafafundar Íslandsbanka um sérstakar arðgreiðslur fyrir áramót. Ríkissjóður á um 95% í bankanum. Greiðslunni fylgir að ríkissjóður þarf að borga fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 5,4 milljarðar kr. sem færist bæði til tekna og gjalda. Einnig er gerð tillaga um 1,9 milljarða kr. tekjur vegna sölu fasteigna á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Samtals nema tekjutillögur 34,3 milljörðum kr.

Á gjaldahlið eru gerðar allnokkrar tillögur. Fyrir utan 5,4 milljarða kr. fjármagnstekjuskatt vegna arðgreiðslu er veigamest 1,5 milljarða kr. tillaga um að nýta forkaupsrétt ríkisins að jörðinni Felli í Suðursveit. Við þetta vil ég aðeins staldra. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og fagna þessum lið sérstaklega. Hún ræddi m.a. um nýafstaðin kaup á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Ég tel að við séum á þeim stað nú að þessi málaflokkur þarfnist ítarlegrar skoðunar og stefnumótunar. Ég er á þeirri skoðun að ríkið eigi að eiga eða a.m.k. skilgreina hvaða jarðir eigi að vera í ríkiseigu. Að mínu mati er Fell þar ofarlega á blaði. Ríkið þarf að ákveða fyrir 10. janúar nk. hvort það hyggist nýta forkaupsréttinn að jörðinni Felli þannig að Alþingi þarf á þeim tímapunkti að taka sérstaka ákvörðun um það. Þessi liður í fjárauka segir ekki til um það en opnar á þann möguleika. Alþingi þarf að koma að þeirri ákvörðun ef til kemur og ég er mjög hlynnt því.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er gerð tillaga um tæplega 1 milljarðs kr. framlag til Vegagerðarinnar vegna nokkurra óvæntra áfalla og skuldbindinga, m.a. vegna nýs Herjólfs. Þar eru 500 milljónir undir. Svo eru vegaframkvæmdir við Eldvatn, þ.e. brúin á Skaftártunguvegi eyðilagðist í Skaftárhlaupi í miklum veðrum fyrir nokkrum mánuðum. Ef fjárauki á ekki að koma til móts við óvænt áföll þegar náttúruhamfarir verða veit ég ekki hvað þannig að ég er mjög ánægð með að þessi framkvæmd hafi komist inn í fjáraukann og þá tryggt að farið verði í lagfæringu á brúnni á Skaftártunguvegi. Hið sama gildir um viðgerðir á sjóvarnargörðunum við Vík í Mýrdal. Þeir fóru mjög illa síðasta vetur og brýnt að þeir verði lagaðir þar sem ágangur sjávar í þessum litla bæ er mjög mikill og ógnar hreinlega fólki og hýbýlum við ströndina. Það er algjört lykilatriði að sjóvörnin þarna sé í góðu lagi, að fólk geti verið öruggt þótt veður séu mikil og mikið gangi á.

Gerðar voru fjórar tillögur um hækkanir á framlögum til sjúkrahúsa og eru þær hluti af víðtækara samkomulagi sem einnig hefur áhrif á tillögur 1. minni hluta við fjárlög ársins 2017 og lokafjárlög fyrir árið 2015. Þarna vil ég líka staldra við vegna þess að í umræðunni um fjárlögin fyrir stuttu tók m.a. til máls hv. formaður hv. fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, og fleiri þingmenn og undirstrikuðu að öll vinna hv. fjárlaganefndar hafi miðast við að ná heilbrigðiskerfinu á núllpunkt, þ.e. við miðum okkar tillögur í fjárlögum, þeim fjárauka sem nú er til umfjöllunar og lokafjárlögum við að ekki verði skorið niður í heilbrigðiskerfinu. Út á það hefur samkomulag okkar og samvinna gengið.

Í þessum skjölum eru tilgreindar upphæðir og hvert þær eigi að fara. Á blaðinu eru t.d. 700 milljónir til Landspítalans, 50 til Sjúkrahússins á Akureyri. Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja skera sig verulega úr hvað varðar erfiða rekstrarstöðu. Þar kemur ýmislegt til. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur glímt við erfiðan skuldahala síðustu ár. Hann er m.a. tilkominn vegna þess að Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja sameinaðist Heilbrigðisstofnun Suðurlands fyrir fáum árum. Sú stofnun var mjög skuldug. Að auki fer, eins og við öll vitum, gríðarlegur fjöldi ferðamanna um Suðurlandið. Þar eru margar sumarhúsabyggðir og þetta veldur álagi langt umfram það sem íbúafjöldinn segir til um á þessu svæði. Tillaga hljóðar upp á 150 milljónir til að koma m.a. til móts við þessi óvæntu útgjöld og ófyrirséðu að sumu leyti, en að sumu leyti ekki. Eins og ég segi er það kannski seinni tíma umræða.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var á árum áður skorin verulega niður. Það hefur tekið lengri tíma en við ætluðum að byggja þá stofnun upp að nýju. Með þeim 50 milljónum sem settar eru fram í fjárauka til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er komið til móts við vanda stofnunarinnar og tryggð rekstrarstaða hennar til lengri tíma en erfiður rekstur þar skýrist, eins og ég sagði, af miklum niðurskurði á árum áður og mikilli umferð um flugstöðina sem er staðsett þarna, alþjóðaflugvöllinn okkar. Það segir sig kannski sjálft, þar um fara margir ferðamenn. Þar eru líka margir starfsmenn sem þurfa þjónustu. Að auki hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað gríðarlega að undanförnu. Við erum að tala um 8% fjölgun. Svo ég setji í smásamhengi framkvæmdir í kringum flugstöðina er áætlað að um 400 ný störf verði til á næsta ári. Þá er ég ekki búin að taka inn í þetta uppbyggingu í iðnaði á Suðurnesjum og ýmsu fleiru sem fylgir með. Við getum ekki alltaf verið eftir á. Við vitum þetta, við þekkjum þessa fjölgun og vitum að þarna erum við með alþjóðaflugvöll. Við þekkjum þörfina þannig að ekki er hægt að segja aftur á næsta ári í fjárauka: Heyrðu, þetta kemur okkur allt rosalega mikið á óvart. Við erum hérna með mörg hundruð þúsund ferðamenn. Við erum með fullt af starfsfólki. Íbúum hérna er enn að fjölga samhliða náttúrlega fjölgun starfa.

Á næsta ári þurfum við að bæta vinnubrögð hvað þetta varðar, þetta getur ekki alltaf komið okkur svona ofboðslega mikið á óvart.

Að síðustu vil ég nefna framlag til mannúðarmála vegna stríðsins í Sýrlandi, neyðaraðstoð upp á 50 milljónir. Ég fagna því sérstaklega að ekki hafi einu sinni þurft að ræða það. Nefndarmenn voru bara fullkomlega sammála um að þetta þyrfti að fara þarna inn í ljósi ástandsins og ég er ánægð með það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, frú forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. fjárlaganefndar fyrir einstaklega gott og lausnamiðað samstarf og traust þar sem allir lögðu sitt af mörkum til að ná góðri niðurstöðu.