146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[19:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga. Mér er gjarnt að horfa á stóru myndina og það er dálítið erfitt að aðskilja þetta frumvarp frá öðrum sem við erum að keppast við að afgreiða fyrir jól, sem eru fjárlög og svo bandormurinn, þær tekjuöflunartillögur sem fylgja þessu öllu saman.

Ég ætla að vera nokkuð einlægur hér í pontu. Ég held að maður eigi að vera það almennt í lífinu, sérstaklega í því starfi sem við gegnum hér. Margir þingmenn hafa í pontu komið inn á það samkomulag sem náðist á milli allra flokkanna sjö sem sæti eiga á þingi um sameiginlega afgreiðslu á þessu máli. Ég ætla að játa að ég hafði mjög miklar efasemdir um að þetta væri rétta leiðin. Ég lít svo á að frumvarp til fjárlaga hvers árs sé í raun pólitískasta frumvarp sem fram kemur hverju sinni. Þar eru línurnar lagðar fyrir það hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið það árið og í ríkisfjármálaáætlun kemur svo sýn til lengri tíma. Ég hafði töluverðar efasemdir um að það væri rétt að flokkarnir næðu allir saman. Sannast sagna fannst mér töluvert spennandi að flokkarnir kæmu einfaldlega með sínar tillögur inn í þingsal, greidd yrðu atkvæði um það hvaða útgjöld flokkarnir væru sáttir við að standa að, þ.e. um hvaða útgjöld næðist meiri hluti á þingi og hvaða útgjöld ekki, og í hendur héldist nauðsynleg tekjuöflun.

Ég skil hins vegar vel að þetta sé niðurstaðan. Þetta eru erfiðir tímar að mörgu leyti í pólitíkinni. Ég tala um spennandi stöðu og vissulega geta erfiðir tímar oft verið spennandi. Ég skil vel þá hugsun sem býr að baki því að þetta er afgreitt í þessari sátt og mun að sjálfsögðu styðja það þó að ég hefði talið hitt að mörgu leyti betra. Eins og staðan er held ég að þetta hafi á endanum verið skynsamlegri leið þó að ég hafi haft mínar efasemdir, einfaldlega vegna þess að miðað við hvernig forsendurnar voru fæst aukið fjármagn í nauðsynlega málaflokka sem ella hefði ekki fengist.

Ég lít á þessi frumvörp öll sem sameiginlegan skilning á nauðsynlegum aðgerðum. Þetta er í raun og veru það minnsta sem við erum tilbúin að gera til að bregðast við því ástandi sem uppi er. Það bíður svo meiri hluta og ríkisstjórnar sem á endanum hlýtur að myndast að byggja enn frekar upp. Við höldum að mörgu leyti í horfinu. Við erum að bregðast við ákalli vegna neyðarástands. En við ætluðum að vera að gera allt aðra hluti hér, ekki satt? Ég man ekki til þess að í kosningabaráttunni hafi margir talað þannig að fyrsta verkefni eftir kosningar yrði að bregðast við ákalli vegna neyðarástands og svo væri hægt að halda í horfinu.

Ég tel að mikið verk sé óunnið í ríkisfjármálum. Það er sorglegt að sú staða sé uppi að þrátt fyrir langt hagsældarskeið sé búið að veikja tekjugrunn ríkisins þannig að við séum í þessari stöðu, að það sé búinn að vera niðurskurður og ekki leiðrétting á óhjákvæmilegum niðurskurði í kjölfar hrunsins, að við getum ekki verið í því sem ég trúi að öll við hér inni myndum vilja vera að gera, að setja hressilega fjármuni í það að byggja upp.

Fráfarandi ríkisstjórn, núverandi starfsstjórn, afsalaði sér í rauninni gríðarlegum tekjum í ríkissjóð. Það er hægt að fara í löngu máli yfir þær aðgerðir. Nægir í því sambandi að nefna lækkun veiðigjaldsins og skattkerfisbreytingar sem nýttust þeim tekjuhæstu best. Þetta er tekjuafsal til ríkisins upp á tugi milljarða sem við hefðum svo sannarlega getað nýtt núna til að byggja almennilega upp.

Þó að ég segi að ég trúi því að öll viljum við byggja upp innviði hef ég orðið var við skort á vilja til að fjármagna nægilega uppbyggingu á innviðum, velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu o.s.frv. Mér hefur þótt skorta á það. Mér hefur þótt þetta lærdómsríkur dagur. Hér náðist samstaða um að afgreiða þessi mál í sátt. Það náðist samstaða um það í fjárlaganefnd að ekki yrðu gerðar breytingartillögur. Engin slík samstaða var í efnahags- og viðskiptanefnd þannig að þegar það eðlilega gerist að lagðar eru fram tillögur um nauðsynlega tekjuöflun er það á einhvern hátt snuprað úr ræðustól, látið eins og það sé eitthvert leikrit þegar það er í raun og veru pólitík. Við erum að fara eftir okkar sannfæringu, því sem við trúum að sé rétt að gera.

Þau þrjú frumvörp sem ég nefndi í upphafi máls míns eru að minnsta kosti til bóta. Eins og ég sagði áðan lít ég á þetta sem sameiginlegan skilning á nauðsynlegum aðgerðum. Ég hlakka til að takast á við það verkefni á nýju ári væntanlega, hvort sem það verður í meiri hluta eða minni hluta, að fara í þær nauðsynlegu breytingar sem þarf að fara í til að efla og styrkja tekjugrunn ríkisins og til að fara í þá innviðauppbyggingu sem við lofuðum öll fyrir kosningar að gera.