146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[19:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um seinna fjáraukalagafrumvarpið á þessu ári og gerum hér ansi miklar breytingar af skiljanlegum ástæðum. Vegur þar þyngst framlagið vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Ég vildi örstutt minnast á þær breytingartillögur sem nefndin gerir er varða Vegagerðina. Þar erum við að setja inn 500 milljónir til að tryggja að hægt sé að skrifa undir samning um smíði nýs Herjólfs og leggjum einnig til framlag til þess að gera við brúna sem fór í Skaftárhlaupi, brú á Skaftártunguvegi. Eins leggjum við til fjármuni í sjóvarnargarðana í Vík í Mýrdal sem er nauðsynlegt að bæta í til að stemma stigu við því að sjór brjóti enn meira af landinu þar.

Þær tillögur sem við leggjum hér fram vegna heilbrigðisstofnana eru hluti af því samkomulagi sem gert hefur verið milli flokkanna í þinginu og komum þannig til móts við þær stofnanir sem, þrátt fyrir þær miklu niðurfærslur á halla sem gert er ráð fyrir í lokafjárlögum, er enn verið að bæta í hjá. Vegur þar t.d. mjög þungt Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Frú forseti. Ég vonast til að þetta frumvarp hljóti góðan stuðning í þinginu. Þrátt fyrir að hér sé um miklar breytingar að ræða erum við engu að síður að ná árangri og ef þetta frumvarp verður samþykkt með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er áætlað að heildarafkoma ársins 2016 verði jákvæð um ansi stóra fjárupphæð. Við hljótum öll að geta glaðst yfir þeim árangri.