146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[20:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum í dag hefur sú sem hér stendur og Samfylkingin ýmislegt við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 að athuga. Hins vegar voru gerðar breytingartillögur sem fjárlaganefnd kom sér saman um og þingið allt hefur komið sér saman um að afgreiða fjárlagafrumvarpið. Mér finnst það sögulegt og held að við getum bara verið svolítið glöð yfir því þó að enginn flokkur hafi fengið nákvæmlega það sem hann vildi. Kannski er gildið í þessu öllu saman að öll förum við svolítið óánægð frá borði þegar við erum búin að ganga frá fjárlagafrumvarpinu en glöð inn í jólin.

Ég þakka samstarfið og sérstaklega formanni nefndarinnar og starfsmönnum fjárlaganefndar og nefndasviðs fyrir að græja þetta á svona stuttum tíma.