146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[20:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, varaformanns fjárlaganefndar, um að það er nokkuð merk stund að við skulum vera komin á þennan stað. Ég get líka verið henni innilega sammála um að við séum öll hæfilega óánægð. Þannig nást góðir samningar, allir ganga nokkuð óánægðir frá borði en ánægðir yfir því að ná niðurstöðu og að þingið hafi staðist það próf að takast á við það að setja íslenska ríkinu fjárlög við þessar aðstæður.

Ég tek undir þakkir til starfsmanna nefndarinnar og starfsmanna ráðuneyta sem voru boðin og búin að koma og aðstoða við vinnu fjárlaganefndar og til samstarfsfólks míns í fjárlaganefnd. Kærar þakkir.