146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[20:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með félögum mínum í hv. fjárlaganefnd og þakka fyrir sérstaklega gott samstarf. Ég tel að við getum lært miklu meira af þessu en við áttum okkur á núna. Það sem gerðist í nefndinni eftir nokkurra daga vinnu, eins og ég upplifi þetta og ég held að það sé nokkuð til í því, er að það myndaðist traust manna á millum og vegna þess að við treystum hvert öðru náðum við að tala saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Ég tel að þetta muni hafa áhrif langt út fyrir þingið. Við höfum oft talað um að það skorti traust til þingsins en ég tel að með þessari afgreiðslu munum við þingmenn byggja undir traust til þess. Með því að treysta hvert öðru getum við fengið almenning til að treysta okkur. Þetta er góð byrjun. Höldum svona áfram.

Ég sagði í ræðu fyrr í dag að ég vildi þakka samstarfsmönnum mínum í nefndinni og sérstaklega formanni nefndarinnar. Hann á hrós skilið. Ég er sannfærð um, og endurtek það hér, að hann muni ekki ofmetnast við slíkt hrós. Ég er nokkuð viss. Takk (Forseti hringir.) fyrir öllsömul og gleðileg jól.