146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla rétt að gera grein fyrir þeim tveimur breytingartillögum sem nú eru komnar fram við 3. umr. í þeirri miklu kerfisbreytingu sem hér um ræðir. Þetta eru ekki flóknar breytingartillögur og liggja frammi á þskj. 41 og 72.

Annars vegar er um að ræða á þskj. 41 breytingu á því ákvæði til bráðabirgða sem samþykkt var við 2. umr., samhljóða held ég að ég muni rétt. Hér er bara verið að árétta örlítið og breyta upptalningu á þeim aðilum sem sæti skulu taka í starfshóp sem ætlað er að skila niðurstöðum um möguleika eða greiningu á því hvort þörf sé á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast, eins og það er orðað í breytingartillögu þessari. Í því sambandi vil ég nefna að mismunandi lífeyristökualdur getur að sjálfsögðu bæði orðið til þannig að hann sé lækkaður hjá einstökum starfshópum en einnig þegar hann er ekki hækkaður gagnvart einstökum hópum við almenna hækkun.

Breytingartillaga á þskj. 72 er viðbót við þá breytingu sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði fram og sem samþykkt var við 2. umr. Hér er aðeins verið að árétta lagatilvísanir þannig að ákvæðið nái markmiði sínu sem er það að samþykktir Brúar lífeyrissjóðs verði aðlagaðar með sama hætti og kveðið er á um í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.