146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

veiting ríkisborgararéttar.

28. mál
[21:33]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Á hverju ári er um 1.000 erlendum ríkisborgurum veittur íslenskur ríkisborgararéttur með stjórnvaldsákvörðun Útlendingastofnunar. Hér hefur skapast sú hefð, jólahefð kalla sumir, að veita nokkrum tugum manna ríkisborgararétt, fram hjá þessu kerfi en með lögum frá Alþingi. Þetta verklag stenst að mínum dómi ekki jafnræði eða þá góðu stjórnsýsluvenju sem alla jafna er höfð í hávegum hér í þessum sal.

Ég ætla ekki að láta þessa skoðun mína hafa áhrif á atkvæðagreiðslu mína að þessu sinni en þetta verður trúlega í síðasta sinn sem ég tek þátt í atkvæðagreiðslu um þetta mál með þessu verklagi. Ég vona að Alþingi leitist á nýju ári við að breyta verklagi þessu og eftir atvikum lögum sem um veitingu ríkisborgararéttar gilda.

Að þessu sögðu óska ég að sjálfsögðu þeim einstaklingum sem hér um ræðir að þessu sinni til hamingju með ríkisborgararéttinn og hef ekki ástæðu til að ætla annað en að hamingjan hvíli líka hjá okkur hinum með þessa ráðstöfun, okkur hinum sem nú þegar erum íslenskir ríkisborgarar.