146. löggjafarþing — 14. fundur,  22. des. 2016.

jólakveðjur.

[22:57]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Undanfarnir dagar hafa verið annasamir enda hefur þingið þurft að fjalla um og afgreiða stór og mikilvæg mál á styttri tíma en oftast áður og ber þar auðvitað hæst afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017. Ég tel að afgreiðsla þess máls í góðri sátt allra flokka hafi sýnt styrk Alþingis og að þingið hafi risið undir þeirri ábyrgð sem á það er lögð þrátt fyrir þær sérstöku pólitísku aðstæður sem við höfum búið við síðustu vikuna. Það mætti jafnvel segja að það hafi verið þroskandi og lærdómsríkt fyrir Alþingi að takast á við að afgreiða viðamikil mál án þess að búa við pólitískan þingmeirihluta líkt og venja hefur verið á þinginu. Ég hef fulla trú á því að við höfum á þessum desemberdögum tekið skref í þá átt að bæta ásýnd Alþingis og auka traust þess með almennings.

Við höfum sannað það, bæði fyrir okkur sjálfum og þjóðinni, að svona getum við unnið. Við höfum staðist prófið sem óvenjulegar og krefjandi aðstæður lögðu fyrir okkur.

Þessi staða, að hér sé ekki þingmeirihluti, hefur ekki komið upp í 37 ár, en slíkt gerðist síðast í kjölfar alþingiskosninga í desemberbyrjun 1979. Forseti vill taka fram að hann var ekki kominn á þing þá. [Hlátur í þingsal.] Þá sat Alþingi í átta daga og afgreiddi vissulega ýmis brýn mál, auðnaðist ekki að afgreiða fjárlög en samþykkti þess í stað bráðabirgðafjárgreiðsluheimildir úr ríkissjóði.

Við búum enn við þá stöðu að hér situr starfsstjórn 54 dögum eftir kosningar. Ýmsum þykir það dragast nokkuð að mynda meiri hluta að baki nýrri ríkisstjórn, eða a.m.k. ríkisstjórn sem þingið getur umborið, en í sögulegu samhengi er þessi staða ekki einstök. Við upphaf annars kjörtímabils míns á Alþingi, eftir alþingiskosningarnar 1987, tók það t.d. 73 daga að mynda ríkisstjórn. Fleiri slík dæmi úr stjórnmálasögu okkar mætti nefna þar sem flókin úrslit kosninga hafa tafið myndun pólitísks meiri hluta á Alþingi.

En einmitt í ljósi þeirrar stöðu að hér situr enn ekki ríkisstjórn með umboð frá Alþingi er þeim mun mikilvægara, og sérstaklega ef þessi staða fylgir okkur inn á nýja árið, að Alþingi hefur tekist að búa svo um hnúta að nýja árið getur gengið í garð vandræðalaust hvað varðar fjárlög og tengd mál. Hin pólitíska staða sem hér er getur birst með ýmsum óvenjulegum og jafnvel skemmtilegum hætti í þingstörfunum. Þannig rekur mig ekki minni til, svo ég vitni enn í sjálfan mig, að á mínum 33 ára þingferli hafi það nokkru sinni fyrr gerst að gefin hafi verið út sex nefndarálit í einu og sama málinu en þannig var staðan við afgreiðslu fjárlaga fyrr í dag að sex minni hlutar lögðu álit sín fram. Ég man að við afgreiðslu frumvarps til laga um stjórn fiskveiða í efri deild árið 1990 klofnaði sjávarútvegsnefnd deildarinnar í fimm minni hluta og þótti það saga til næsta bæjar. Það met hefur sem sagt verið slegið hér.

Mig langar að bæta við einu óvenjulegu í viðbót. Nær örugglega hafa aldrei fleiri þingmenn unnið drengskaparheit að stjórnarskránni í einum og sama mánuðinum og nú. Alls undirrituðu 27 nýir þingmenn og varamenn drengskaparheit í desember og tóku sæti á Alþingi í fyrsta sinn.

Ég vil við þetta tækifæri þakka varaforsetum fyrir góða samvinnu um stjórn þingfunda. Ég þakka jafnframt formönnum stjórnmálaflokkanna og þingflokkanna fyrir lipurt og gott samstarf. Ég vil láta í ljósi sérstaka ánægju mína með þann góða vilja sem þingmenn hafa sýnt til að leysa úr þeim málum sem brýnast var að afgreiða fyrir jólahlé þingsins.

Í lok þessa síðasta þingfundar ársins 2016 færi ég þingmönnum öllum, ráðherrum svo og starfsfólki Alþingis kærar þakkir fyrir störf þeirra og óska þeim öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar.

Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýárskveðjur.