146. löggjafarþing — 15. fundur,  24. jan. 2017.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:34]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti býður hv. alþingismenn velkomna til starfa að afloknu hefðbundnu fundarhléi yfir jól og áramót og í fyrri hluta janúarmánaðar. Sem og heilsa ég starfsfólki Alþingis. Ég vænti þess að við höfum öll átt góðan tíma með fjölskyldu og vinum til hvíldar og til að sinna öðrum verkefnum sem setið höfðu á hakanum eftir langa törn kosningabaráttu, stjórnarmyndunarviðræðna og annasamra þingstarfa í desember. Jafnvel hafa einhverjir getað látið eftir sér að horfa á einstaka handboltaleik eða náð fyrstu þorrablótunum.

Eins og ráða má af upphafi fundarins hefur það dregið til tíðinda síðan við kvöddumst í áliðnum desember að ný ríkisstjórn sem styðst við meiri hluta á Alþingi hefur tekið við völdum. Ég færi henni árnaðaróskir og ekki síst fjölmennum hópi þingmanna sem nú gegnir ráðherraembætti í fyrsta sinn.