146. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2017.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[13:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í tilefni af nefndakjöri hér í dag vil ég geta þess að formenn þingflokka bæði stjórnar og stjórnarandstöðu hafa átt allnokkra fundi í þeim tilgangi að unnt yrði að leggja fram sameiginlega tillögu um nefndakjör og verkefnaskiptingu í nefndum sem myndi eftir atvikum ná bæði til fastanefnda og alþjóðanefnda þingsins sem eru hér á dagskrá í dag.

Niðurstaða þeirra óformlegu viðræðna sem áttu sér stað milli flokkanna á allmörgum fundum leiddu ekki til jákvæðrar niðurstöðu þannig að hér erum við ekki með sameiginlega tillögu um nefndakjörið, ekki til fastanefnda þingsins. Fyrir því eru ýmsar ástæður og við sem sátum við það borð getum hugsanlega verið ósammála um einstök atriði í því sambandi en þetta er niðurstaðan. Á hinn bóginn er til þess að líta að allgóð samstaða var um það hvernig verkum yrði skipt varðandi alþjóðanefndir þingsins og mun það endurspeglast í tillögugerð hér á eftir.