146. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2017.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[13:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar tókst ekki samkomulag um þennan lið, þ.e. um kosningu í fastanefndir Alþingis. Það eru auðvitað gríðarleg vonbrigði að svo var ekki. Það hlýtur að vera mikilvægt að gott samstarf takist hér á Alþingi þegar um er að ræða minnstan mögulegan meiri hluta. Það er söguleg staða og það er staða sem útheimtir það að við þurfum að eiga gott samstarf á Alþingi. Andinn í breytingum þingskapalaga 2011 var að nefndaskipan og forysta nefnda endurspeglaði afl og fylgi þingflokka en ekki endilega meiri hluta í ríkisstjórn á hverjum tíma. Þetta er erfiður upptaktur, virðulegi forseti, að störfum hér, og það verður krefjandi fyrir okkur öll sem eigum sæti á Alþingi að byggja traust og gott samstarf á þessum grunni.