146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. forsætisráðherra um þann samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt að undanförnu eftir að ung kona var svipt framtíð sinni með óhugnanlegum hætti. Við skulum öll standa saman gegn ofbeldi og tryggja að unga fólkið fái að eiga framtíð sína í friði.

Það eru víða blikur á lofti í heiminum, það er víða ófriðlegt. Víða hafa kosningaúrslit komið mörgum í opna skjöldu, úrslit sem endurspegla vaxandi gjá milli ólíkra hópa í samfélögum vestan hafs og austan og sýna að hægt er að bregðast við með ólíkum hætti.

Stjórnmálamenn geta nefnilega gert hvort tveggja, þeir geta byggt múra eða þeir geta byggt brýr. Ég segi að við eigum að byggja brýr en til þess þarf að takast á við hin raunverulegu stóru verkefni. Sum þeirra nefndi hæstv. forsætisráðherra í ræðu sinni eins og til að mynda loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar þar sem við þurfum að sýna raunverulegar aðgerðir. Við þurfum að undirbúa vinnumarkaðinn á Íslandi til að takast á við þá tækniþróun sem mun geta gerbreytt honum hér eins og annars staðar og síðast en ekki síst þarf að tryggja jöfnuð og þar með félagslegan stöðugleika. Það heyrði ég hæstv. forsætisráðherra ekki ræða mikið í ræðu sinni áðan. Slíkt verkefni kallar nefnilega á raunverulegar kerfisbreytingar og sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við er ekki ríkisstjórn utan um slíkar breytingar.

Það segir sína sögu að hæstv. forsætisráðherra ákvað að vitna í Tómas Guðmundsson og kvæði hans frá fjórða áratug síðustu aldar því að stjórnarsáttmálinn er um margt í besta 1920-stíl, kannski táknrænt að hann er undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi. Kynning fjármálaráðherra, sem við heyrðum af í fjölmiðlum, á ríkisfjármálastefnu nýrrar stjórnar er sömuleiðis íhaldssöm. Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við boðar nefnilega íhaldssama stefnu. Það má kalla hana jafnvægi, það má líka kalla hana kyrrstöðu því að ætlunin er að fresta nauðsynlegri eflingu velferðar og menntakerfis, það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má ekki afla aukatekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Undir þetta er kvittað í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir: Fjármagnið er af of skornum skammti. Hins vegar, segir ráðherrann, þarf að gera eitthvað í þeim hughrifum að samfélagssáttmálinn um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.

Hughrifin birtast líklega í 86.000 undirskriftum frá Íslendingum sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi er umtalsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og skortir fjármuni til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstv. forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana og þyngdist á aðra hópa. Sumir myndu reyndar kalla þetta staðreyndir fremur en hughrif.

Góðir landsmenn. Íslendingar vita vel að betur hefur árað í efnahagslífinu að undanförnu og margir hafa það betra nú en fyrir nokkrum árum sem er gott. Slík staða skapar sóknarfæri en líka áskoranir, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega. En stjórnun efnahagsmála snýst ekki einungis um að viðhalda góðu ástandi. Hún snýst um að móta stefnu til framtíðar þannig að við hlúum að atvinnugreinum okkar, tryggjum að þar sé skýr sýn en ekki togað í ólíkar áttir. Það er svo sannarlega áskorun að vinna með stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustunni, tryggja tekjustofna til uppbyggingar innviða og stefna að umhverfisvænni ferðaþjónustu sem uppfyllir í senn metnaðarfull loftslagsmarkmið og tryggir vernd einstakrar náttúru. En það er líka hægt að halda bara áfram að bíða og sjá, leyfa landeigendum að innheimta gjöld þvert á náttúruverndarlög og bíða eftir að tröllin komi þrammandi niður úr fjöllunum, öll sem eitt, og sæki framlág um störf í ferðamannaiðnaðinum, svo vitnað sé í skáld frá 21. öldinni til tilbreytingar.

Það er áskorun að tryggja að efnahagsbatinn skili sér til allra hópa en ekki aðeins ríkustu hópanna í samfélaginu — þó að stuðningur við ríkisstjórnina sé mestur í þeim hópum. Það er áskorun að tryggja lýðræði í stað auðræðis og það er full ástæða til að leiðrétta stöðu tekjulægstu hópanna þegar kannanir sýna okkur að nokkur þúsund börn líða efnislegan skort í okkar ríka samfélagi. Til að tryggja jöfnuð og félagslegan stöðugleika þarf að ráðast í kerfisbreytingar, skattleggja fjármagnið og létta skattbyrðinni af tekjulægstu hópunum. Þar væri hægt að byrja á sjúklingasköttunum sem eru hærri hér en annars staðar og um leið væri hægt að afla aukinna tekna af þeim sem hafa mest milli handa því að ef aðhald er sett á útgjöld í velferðarmálum í stað þess að hækka skatta á auðmenn er í raun verið að hækka álögur á venjulegt fólk fremur en þá ríkustu. Það er í velferðina sem venjulega fólkið sækir sín verðmæti. Við skulum ekki ímynda okkur að hér sé ekki misskipting eins og annars staðar í hinum vestræna heimi. Við vitum vel að ríkustu 10% hér eiga þrjá fjórðu alls auðs samkvæmt tölum frá 2012 og ekki er ólíklegt að skattalækkanir og skuldaleiðréttingar síðustu þriggja ára hafi enn aukið á þá misskiptingu. Við viljum ekki að staðinn verði vörður um slíkan ójöfnuð eins og hér er boðað.

Félagslegur stöðugleiki mun nefnilega líka skipta máli í því verkefni sem hér hefur verið nefnt, að takast á við þær tæknibreytingar sem munu á næstu árum og áratugum gerbreyta vinnumarkaðnum eins og við þekkjum hann. Þar þarf að hafa í huga réttindi launafólks, bætt kjör, og vissulega líka aukna menntun. Þess vegna þurfum við að sjá tölusett markmið þannig að fjárframlög til háskólanna nái OECD-meðaltalinu og í framhaldinu meðaltali Norðurlandanna. Við þurfum að tryggja að framhaldsskólarnir okkar geti opnað dyr sínar fyrir öllum aldurshópum ólíkt því sem verið hefur og tryggt fjölbreytt nám sem mætir þörfum nemenda. Þarna eru ekki boðaðar nægjanlegar breytingar, þarna skortir skýr tölusett markmið en vissulega er talað um fjölbreytt rekstrarform sem þýðir á mannamáli einkarekstur og útvistun sem almenningur í landinu hefur engan sérstakan áhuga á en Samtök atvinnulífsins hafa vissulega verið áhugasöm um.

Virðulegi forseti. Það gladdi mig að heyra hæstv. nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýsa því yfir að ekki yrðu sett lög á verkfall sjómanna enda yrði slík ráðstöfun ekki líkleg til að skapa sátt um greinina. Ég vil segja hér að ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um þessa áherslu.

Ég vil líka segja að ég bind vonir við nýjan hæstv. umhverfisráðherra sem hefur boðað metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við treystum því að hún komi fram fljótlega og að ráðherra taki líka höndum saman við þingmenn Vinstri grænna um að nýjum hálendisþjóðgarði verði komið á fót. Við þingmenn Vinstri grænna munum styðja ráðherrann til allra góðra verka í þessum málaflokki.

En eins og við vitum öll mun líka þurfa kerfisbreytingar til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum. Spurningin er hvort ríkisstjórnin sem virðist að mörgu leyti svo furðulega íhaldssöm muni komast í gegnum það því að í loftslagsmálunum dugir ekki að hafa öflugan umhverfisráðherra, öll ráðuneyti og allar stofnanir þurfa að vinna saman og þar mun reyna mikið á forystu ríkisstjórnarinnar.

Góðir landsmenn. Kerfisbreytingar voru orð síðustu kosningabaráttu. Heilir flokkar voru stofnaðir um slíkar breytingar í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem og Evrópusambandsaðild. Þessir sömu flokkar eru mættir í ríkisstjórn sem fyrst og fremst mótast af stefnu Sjálfstæðisflokksins — allt á réttri leið, sagði hann í síðustu kosningabaráttu og nánast endurprentar stefnuskrána í stjórnarsáttmálanum. Kerfisbreytingar bíða betri tíma. Ekki er hægt að gera allt í einu enda er framtíðin löng, segir nýr fjármálaráðherra. Manni kemur annar ráðherra í hug úr sjónvarpsþáttunum „Já, ráðherra“ sem var einmitt ritstjóri blaðsins Reform sem mætti þýða Kerfisbreytingar áður en hann varð ráðherra stjórnsýslumálefna. Frasinn um að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi varð honum einmitt mjög tamur eftir að hann tók við embætti og kynntist sínum ágætu embættismönnum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB sem sett var á dagskrá fyrir kosningar verða allt í einu að bíða eftir því að rykið setjist eftir Brexit. Skyndilega er Róm ekki byggð á einum degi og menn fara að vitna í Tómas Guðmundsson í leit að innblæstri. Tómas Guðmundsson orti raunar fleira en Hótel jörð, t.d. þetta:

„Og satt er það að stundum hef ég þurft / á öllu mínu ístöðuleysi að halda.“

Einhvern veginn komu mér þessi orð í hug þegar nýr stjórnarsáttmáli birtist eftir margra mánaða tal um kerfisbreytingar, nokkurn veginn kerfisbreytingalaus.

Góðir landsmenn. Við sem sitjum á Alþingi erum öll fulltrúar almennings. Þess vegna er meginverkefni okkar að tryggja að allir í samfélaginu séu á sama báti og hafi tækifæri til að njóta alls þess sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Þannig stuðlum við að félagslegum stöðugleika, samkennd og bættum lífsgæðum, en við þurfum ríkisstjórn sem er reiðubúin til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta lífskjör allra til framtíðar. Kerfum sem standa vörð um forréttindi sumra þarf að breyta, góðir landsmenn, og til þess þarf líklega öðruvísi ríkisstjórn en þá sem nú hefur tekið við.

Eitt er þó það verkefni sem við ættum öll að geta sameinast um sem hér sitjum þótt ekki séum við sammála um þetta og það er að byggja brýr. Á hverjum degi hittum við slíka smiði, strætóbílstjórann sem heilsar öllum og minnir mann á að öll njótum við virðingar í bílnum hans, leikskólakennarann sem leysir úr vanda ólíkra barna með ólíkan bakgrunn, fólk sem hingað kemur frá öðrum löndum, jafnvel á flótta, en kennir okkur svo ótal margt og gerir líf okkar fjölbreyttara og betra. Þarna eru þjóðarleiðtogar sem auka skilning milli ólíkra þjóða og þingflokksformenn sem leysa hnúta en herða þá ekki en við hittum líka þá sem smíða múra, vilja alltaf loka sig inni og breyta engu. Ég held að í öllum löndum heims sé eitt mikilvægasta verkefnið núna fyrir stjórnmálin að leggja brúarsmiðunum lið, óháð því hvar við stöndum í flokki. Ég vona að það geti í það minnsta orðið okkar sameiginlega verkefni. — Góðar stundir.