146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég er ekki frá því að það þurfi ákveðið hugrekki til þess að mynda þriggja flokka ríkisstjórn með eins manns meiri hluta eins og við sjáum nú. Þetta verður sérstakt kjörtímabil fyrir margra hluta sakir, enda voru úrslit þessara kosninga um margt óvenjuleg. Aldrei hefur fjórflokkurinn fengið jafn lítið fylgi og nú og aldrei hefur hlutfall nýrra þingmanna verið jafn hátt. Þá hafa konur á þingi aldrei verið fleiri og aldrei fleiri flokkar komist að. Þetta endurspeglar þá skýru kröfu sem er uppi í þjóðfélaginu um endurnýjun, fjölbreytni og ný vinnubrögð í stjórnmálum.

En hvað gerðist svo? Þeir flokkar sem í aðdraganda kosninga skreyttu sig ferskum umbótafjöðrum og lofuðu samræðustjórnmálum, meiri kurteisi og nýjum vinnubrögðum, hafa myndað bandalag um óbreytt ástand. Viðreisn og Björt framtíð vega salt við Sjálfstæðisflokkinn. Sú ríkisstjórn sem nú hefur verið mynduð er langt frá því að vera okkar draumaríkisstjórn, en við Píratar munum beita þingstyrk okkar að fullu, veita ríkisstjórninni aðhald eins og kostur er, en styðja góð mál þegar þau koma fram.

Virðulegi forseti. Sannleikurinn er sagna bestur. Í því ljósi er það sjálfsögð krafa að ráðherrar ríkisstjórnar Íslands segi Alþingi og þjóðinni satt og rétt frá. Lög um sannleiksskyldu ráðherra eru í gildi í mörgum nágrannalanda okkar en lög um ráðherraábyrgð sem hér eru í gildi tryggja ekki þessa mikilvægu ábyrgð ráðherra gagnvart þingi og þjóð.

Ég vil leggja áherslu á þetta í ljósi nýliðinna atburða þar sem fyrrverandi fjármálaráðherra bar því við að hann vildi ekki setja ákveðna skýrslu í kosningasamhengi, skýrslu sem í stóra samhenginu fjallaði um ástæðu þess að kosningum var flýtt. Í stuttu máli sagt leyndi ráðherra upplýsingum sem fram komu um eignir Íslendinga í skattaskjólum í aðdraganda kosninga sem haldnar voru vegna þess, mögulega, að upp komst að hann sjálfur og tveir samráðherrar hans voru nefndir í Panama-skjölunum.

Það er því miður ekkert sem gerir ráðherrum skylt samkvæmt íslenskum lögum að birta mikilvægar upplýsingar að eigin frumkvæði. Þetta er mál sem við Píratar munum berjast fyrir á þessu kjörtímabili, rétt eins og því síðasta. Það er nefnilega þannig að í siðuðum lýðræðisríkjum er það kallað spilling þegar stjórnmálamenn beita opinberu embætti sínu í þágu persónulegra og pólitískra hagsmuna. Þá er það kallað lygi þegar menn fara vísvitandi með rangt mál. Nú reynir á nýtt þing að sýna að tal okkar allra um ný vinnubrögð og ábyrgð í stjórnmálum sé ekki orðin tóm.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála og stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra er talað um fátt sem hönd á festir en þó er þar talað um framsýni. Orðið „samræðustjórnmál“ hefur einnig verið einkennisorð eins stjórnarflokksins. Sömuleiðis eru orð um að það þurfi að breyta fiskveiðikerfinu, landbúnaðarkerfið þurfi að bæta, betri vinnubrögð hér og þar og þar fram eftir götunum, og svo er það sátt. En þegar á hólminn er komið er það sátt svo lengi sem það hentar þeim sjálfum og þeirra hagsmunum. Það skiptir greinilega máli að vera besti vinur aðal. Að byrja þingið á því að neita minni hlutanum um nefndasetu sem endurspeglar þingstyrk eru ekki ný eða fersk vinnubrögð, heldur afturför og spilling því að spilling snýst ekki einungis um misbeitingu valds heldur um atferli sem dregur úr trausti á stofnunum og reglum samfélagsins. Sérhagsmunagæsla hins ofurnauma þingmeirihluta er gott dæmi um þetta.

Góðir landsmenn. Það er neyðarástand í heilbrigðismálum á Íslandi. Í viðtali við Morgunblaðið 16. júlí sl. viðurkenndi hæstv. forsætisráðherra, þá fjármálaráðherra, með leyfi forseta, „að 20% sjúklinga treysta sér ekki til að leita heilbrigðisþjónustu vegna bágrar fjárhagsstöðu“. Í dag segir hæstv. forsætisráðherra hins vegar að ótryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu séu bara hughrif. Alveg eins og það er víst geðveiki að finnast ekki allt vera í fína lagi á Íslandi. Að tala svona til þjóðarinnar um okkar alvarlegu vandamál, viðkvæmustu vandamál okkar, heilsu okkar, ber ekki vott um virðingu fyrir nýfengnu umboði.

Virðulegi forseti. Það er ómögulegt að rækta það sem býr innra með okkur í aðstæðum þar sem ekkert tillit er tekið til mismunandi þarfa og hugmyndaheima fólks. Lítið er um tækifæri til að hafa áhrif á ytri aðstæður þegar meiri hlutinn valtar alltaf yfir restina. Auðvitað er þjóðfélagið speglun á því sem er að gerast í æðstu valdastofnun þjóðfélagsins. Hvernig aðstæður er verið að skapa hér á þingi? Hér er verið að búa til aðstæður þar sem þingmenn eru sífellt að keyra á yfirsnúningi vegna skipulagsleysis og óöryggis um störf þingsins, of lítils undirbúningstíma þegar fjallað er um risastór mál í þingsal, eins og flýtiafgreiðsla fjárlaga fyrir jól er til vitnis um, en eins og hæstv. forsætisráðherra nefnir þá líður fæstum vel á yfirsnúningi.

Hvernig væri ef við myndum byrja á því að skapa þetta draumaumhverfi sem hæstv. forsætisráðherra talar um, hér á þessu þingi? Það er vondur bragur á því hvernig núverandi stjórnarflokkar hafa gengið fram t.d. varðandi nefndaskipan, notað smáa letrið í samningnum til hins ýtrasta í stað þess að virða anda laga um þingsköp sem samþykkt voru árið 2011 eftir ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir bankahrunsins. Þau þingsköp voru sniðin einmitt að því að gera framkvæmdarvaldið minna ráðandi en það hafði verið fyrir hrun, til þess að fjölbreytnin í samfélaginu kæmist að, fengi að njóta sín, en rétt eins og hv. forsætisráðherra nefnir þá er Ísland fjölmenningarsamfélag. Það þýðir að ólíkar skoðanir, ólíkir flokkar, ólíkar stefnur og ólíkur uppruni þurfa að eiga sæti við borðið. Og það er í lagi að vera ósammála en á málefnalegum og upplýstum grundvelli.

Af hverju brýst óþolinmæði og reiði fram? Að minni reynslu er það vegna þess að fólk upplifir að það hafi ekkert vald. Að ekki sé hlustað á það sem það hefur fram á að færa. Að verið sé að valta yfir það og það sem það hefur til málanna að leggja á ómálefnalegum grundvelli. Á þeim grundvelli að það sé ekki í réttu liði.

Virðulegi forseti. Við erum ekki lauf í vindi, eins og framtíðarsýn hæstv. forsætisráðherra gefur til kynna. Það er nauðsynlegt að hafa skýra mynd um hvert við ætlum að stefna. Við getum undirbúið okkur fyrir framtíðina. Við getum tekið ákvörðun um hvert skal stefna, t.d. að auka gagnsæi, að fylgja stjórnsýslulögum og að samþykkja nýja stjórnarskrá. Við getum meira að segja undirbúið okkur undir komu sjálfkeyrandi bíla.

Hvar er framsýni og stefna ríkisstjórnarinnar? Við þurfum að taka ákvörðun um hvert við ætlum að stefna sem þjóðfélag og taka viðeigandi skref í þá átt. Við þurfum að hætta að beita okkur bara fyrir hlutunum í orði og fara að framkvæma.

Hæstv. forsætisráðherra minntist á menntun, að hún væri það mikilvægasta sem hægt væri að hugsa sér. Ætlar ríkisstjórnin að afnema 25 ára regluna í framhaldsskólum? Eða er það of óþægilegt?

Góðir landsmenn. Mig langar að lokum að minna á að nú sem aldrei fyrr er þörf á því að efla rödd mannréttinda og jafnréttis, tjáningarfrelsis og lýðræðis í heiminum. Ísland getur gert það. Við þurfum að standa við stóru orðin, ekki einungis gagnvart kjósendum okkar og þjóð heldur heimssamfélaginu í heild. Við Píratar munum standa við okkar og halda ótrauð áfram að berjast fyrir mannréttindum og lýðræðisumbótum. Það eina sem er öruggt er að framtíðin mun koma okkur á óvart en við tökum henni opnum örmum.