146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Á fyrstu dögum nýrrar og frjálslyndrar ríkisstjórnar er ástæða til bjartsýni. Ytri aðstæður eru um margt góðar. Sumir kynnu að segja að það þýddi að ekki væri ástæða til breytinga en góðæri er einmitt rétti tíminn til að hugsa hlutina upp á nýtt og ráðast í nauðsynlegar umbætur, umbætur sem stuðla að lífskjörum sem eru samkeppnishæf við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Þversögnin sem blasir við þjóðinni er að hún þarf á tvennu að halda, breytingum og stöðugleika. Við höldum í það góða en breytum hinu. Við viljum kerfisbreytingar en engar kollsteypur. Við verðum að treysta jafnrétti í sessi á öllum sviðum, ekki síst rétt kynjanna til jafnra áhrifa og jafnra launa. Allir sem hafa vilja og getu til þess að vinna eiga að hafa rétt til þess, óháð aldri. Hið opinbera og fyrirtæki á almennum markaði hafa sett sér reglur um að enginn skuli vinna eftir ákveðinn fjölda afmælisdaga. Þjóðfélagið tapar með þessu miklum mannauði og fjölda vinnufúsra handa á sama tíma og víða er skortur á vinnuafli.

Stöðugleiki virkar kannski ekki spennandi, kannski vegna þess að orðið minnir á stöðnun. Stöðugleiki í efnahagslífinu væri aftur á móti bylting á Íslandi. Þjóðin hefur vanist miklu meiri sveiflum í launum og gengi en flest önnur ríki heims, a.m.k. í hinum vestræna heimi. Uppsveiflan er algjört æði en fallið sem óhjákvæmilega kemur í kjölfarið ef menn fara of hátt er ömurlegt. Það væri bylting að hafa langvarandi stöðugleika hér á landi. Það væri bylting að hafa verðlag líkt því sem gerist erlendis. Íslendingar þekkja vel að kjarabætur sem felast í því að launin hækki um ákveðna krónutölu sem verður að engu í verðbólgu eru engar kjarabætur.

Já, það væri bylting að hafa vexti sambærilega við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum Íslands. Og það væri mikil breyting frá því sem nú er ef traust á grunnstoðum samfélagsins, eins og æðstu stjórn ríkisins, ríkisstjórn og Alþingi, færi á nýjan leik að aukast.

Í þessum heimi er margt sem Alþingi og ríkisstjórn geta ekki breytt. Alþingi skapar ekki verðmæti. Það eru fyrst og fremst fyrirtækin og starfsmenn þeirra sem skapa þann auð sem velferðarkerfi okkar byggist á. Þó er margt sem við alþingismenn og ríkisstjórn getum haft áhrif á. Við getum skapað góða umgjörð fyrir fólk og fyrirtæki. Við getum auðveldað innflutning á landbúnaðarvörum. Samningur við Evrópusambandið um gagnkvæma niðurfellingu tolla af ýmsum vörum mun tvöfalda innflutning á landbúnaðarvörum á sumardögum. Þá mega dýrir tollkvótar ekki verða til þess að hækka verð til neytenda óeðlilega mikið. Hagur neytenda og valfrelsi þeirra verður að vera í öndvegi.

Við getum líka haft áhrif á vexti og vaxtagreiðslur. Af málefnasviðunum 34 í fjárlögum er ekkert sem kemst í hálfkvisti við þá 70 milljarða kr. sem vaxtagreiðslur eru nema sjúkrahúsrekstur sem fær 77 milljarða. Augljósasta leiðin til að bæta afkomu ríkisins er að lækka vaxtabyrðina.

Og hvað eigum við að gera til þess? Ábyrgur ríkisrekstur. Niðurgreiðsla skulda. Afnám hafta og þar með betra lánshæfismat. Allt lækkar þetta vaxtagjöld. Lánshæfiseinkunn ríkisins hækkaði frá B og upp í A — hvenær? Sama daginn og ný ríkisstjórnin tók við. Hærri einkunn leiðir til lægri vaxta. Það voru góðar fréttir en við getum gert enn betur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru leyti hvers vegna vextir eru að jafnaði miklu hærri hér á landi en í nágrannalöndum. Vinna er þegar hafin við að undirbúa endurskoðun peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands með það fyrir augum að auka stöðugleika í gengi. Ný peningastefna þarf að veita öryggi svo fyrirtæki geti staðið af sér hagsveiflur og gert langtímasamninga. Launþegar verða líka að hafa vissu um að launin dugi fyrir útgjöldunum og að verðbólga éti ekki upp kjarabæturnar.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þjóðfélag byggir á trausti manna á milli og ekki síst trausti á stofnunum. Besta leiðin til að skapa sér góða ímynd er að hegða sér vel. Sáttfúsir og lausnamiðaðir þingmenn og ráðherrar byggja í sameiningu upp traust þjóðarinnar. En þetta getur verið svolítið snúið. Víðtækt samráð þýðir að halda þarf marga fundi og gera margt sem tafið getur afgreiðslu mála. Það er þó fyllilega réttlætanlegur fórnarkostnaður samanborið við virði þess að samstaða náist um helstu mál, að traust sé milli manna og trúverðugleiki aukist.

Tortryggni er meinsemd í þjóðlífinu. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnvöld vinni fyrir opnum tjöldum eins og frekast er unnt. Gagnsæi og greið svör eru aðferðirnar til að draga úr grunsemdum um að eitthvað misjafnt eigi sér stað. Eitt fyrsta verk mitt í fjármálaráðuneytinu var að ákveða að kostnaðarreikningar ráðuneytanna og stofnana þeirra yrðu allir aðgengilegir almenningi á netinu. Unnið hefur verið að undirbúningi um hríð og stefnt er að því að þetta gerist á vordögum.

Ríkið getur víða sýnt ráðdeild. Nýlegar tilraunir með sameiginleg innkaup margra stofnana hafa sparað milljarða. Alþingismenn, við sem hér erum, eru vörslumenn almannafjár og þurfa að gæta þess að fara vel með. Markmiðið er nefnilega ekki að eyða sem mestu í góð málefni heldur að gera eins mikið gott fyrir peningana og hægt er. Við í ríkisstjórninni segjum svarta hagkerfinu og skattaskjólunum stríð á hendur. Í kjölfar skýrslu um umfang aflandseyjaeigna Íslendinga hef ég átt fundi með bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, m.a. í því skyni að loka skattasmugunum.

Kæru landar. Forgangsmálin eru skýr og koma fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Heilbrigðismálin eru í forgangi. Umbætur í landbúnaði og sjávarútvegi sem skapa betri sátt um greinarnar eru nauðsynlegar. Stöðugt gengi gerir Ísland samkeppnishæft við nágrannalöndin. Íslenskt atvinnulíf er ekki bara í samkeppni við erlend fyrirtæki, Ísland er í samkeppni við útlönd um gott fólk. Lífskjör á Íslandi verða að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum þannig að við höldum í okkar besta fólk.

Það er skynsamlegt að byggja upp innviði, bæta fjarskiptakerfið, laga vegi og leggja nýja. Við gerum samt ekki allt í einu. Mér er það minnisstætt þegar hv. þingmaður, formaður Vinstri grænna, talaði um að oft hefðu stjórnvöld haft háleitar hugmyndir en færst of mikið í fang og reynt að þvinga í gegn breytingar án þess að leita sátta. Það er óskynsamleg aðferð og lítt vænleg til varanlegs árangurs.

Við Íslendingar eigum að efla frelsið á öllum sviðum, rífa niður höft og múra og auðvelda viðskipti milli landa. Jón Sigurðsson, sjálfstæðishetjan góða, sagði ætíð að frjáls viðskipti væru forsenda fyrir velmegun þjóðarinnar og raunverulegu sjálfstæði hennar.

Góðir Íslendingar. Við höfum margoft sýnt að á dögum gleði og sorgar stöndum við saman sem einn maður. En hvað um dagana þar á milli? Enginn ætlast til þess að við séum sammála um stórt og smátt en við getum verið sammála um vinnubrögð. Við getum verið sammála um það að vinna öll af heilum hug, að ræða af virðingu hvert við annað og hvert um annað. Enginn stækkar á því að smækka annan.

Baráttumál Viðreisnar eru frelsi og jafnrétti á öllum sviðum. Eflum bræðralag með þjóðinni og ryðjum þannig brautina fyrir frelsið og jafnréttið.