146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur. Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna. Borgararéttindi. Friðhelgi einkalífs. Gagnsæi og ábyrgð. Upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Þetta er grunnstefna Pírata í hnotskurn, leið okkar að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fólk er sett í forgang og þeir valdaminni eru verndaðir gegn misbeitingu hinna valdameiri.

Á undanförnum árum hefur margt gerst sem varðar stefnu Pírata. Loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB var svikið. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá var grafin í nefnd. Ráðherrar leyndu almenning upplýsingum og lugu að þjóð og þingi. Heilbrigðiskerfi og menntakerfi sveltur þrátt fyrir að almenningur vilji forgangsraða þar umfram aðra þjónustu hins opinbera.

Á þessu kjörtímabili eru Píratar utan ríkisstjórnar og munu sinna því hlutverki af sanngirni og ákveðni. Afstaða Pírata er óháð því hverjir talsmenn þeirra eru. Píratar eru málefnalegir og vinna samkvæmt því. Í stefnuyfirlýsingu og þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er að finna nokkur mál sem Píratar gætu stutt væru þau vel útfærð. Við þorum hins vegar að gagnrýna eins harðlega og þarf til þess að vernda hag þeirra sem við vinnum fyrir, vernda hag fólksins í landinu.

Sem dæmi um slíka gagnrýni má nefna að í stefnuræðu forsætisráðherra er fullyrt að fjárlög ársins 2017 hafi verið samþykkt í góðri sátt á Alþingi. Það eru í besta falli hughrif forsætisráðherra. Píratar upplifðu enga slíka sátt. Píratar þurftu að berjast fyrir því að ekki yrði niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Píratar þurftu að berjast. Fjárlögum var bjargað með samningi um aukin framlög til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, samgöngumála og löggæslu. Það var engin sátt, það var samningur þar sem enginn var sérstaklega ánægður með niðurstöðuna. Píratar frábiðja sér svona eftirásöguskýringar og krefjast heiðarlegri vinnubragða.

Góðir landsmenn. Framtíðarsýn Pírata um réttlátt og sanngjarnt samfélag byrjar hér. Stefna Pírata er skýr. Í síðustu kosningum lögðum við áherslu á að endurreisa heilbrigðiskerfið, endurvekja traust og tækla spillingu, tryggja réttláta dreifingu auðs af sameiginlegum auðlindum, auka aðkomu fólks að ákvarðanatöku og að uppfæra samfélagssáttmálann okkar. Píratar eru með lausnir í heilbrigðismálum, umhverfismálum, húsnæðismálum, menntamálum, málefnum aldraðra, málefnum öryrkja og auðlindamálum, lausnir sem henta fólki. Lausnir sem við búum til saman og tökum ábyrgð á saman. Píratar vilja að eignarhald fyrirtækja sé gagnsætt og aðgengilegt af því að hagsmunatengsl og skattundanskot eru vandamál.

Píratar vilja sanngjarnt kosningakerfi. Lýðræðið er bara jafn gott og kosningakerfið leyfir. Við hefjum þetta kjörtímabil með ríkisstjórn sem skortir lýðræðislegt umboð. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samtals með minni hluta atkvæða á bak við sig, færri atkvæði en stjórnarandstöðuflokkarnir til samans. Stjórnarandstaðan er með stuðning fleiri kjósenda en ríkisstjórnin, samt er ríkisstjórnin með meiri hluta þingsæta. Ríkisstjórnin er með lagalegt umboð, ekki lýðræðislegt.

Skortur á lýðræðislegu umboði er ekki eina vandamál þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að taka við. Nýlega komst fólk að því að forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, hélt skýrslu, með upplýsingum sem vörðuðu almannahag, leyndri fyrir kjósendum. Ekki er nóg með það heldur varð ráðherra uppvís að því að reyna að ljúga um það hvenær skýrslan var tilbúin. Píratar vilja lögfesta sannleiksskyldu ráðherra af því að það er glæpsamlegt ef ráðherra lýgur að þingi eða þjóð.

Nú upplýsti hæstv. heilbrigðisráðherra að siðareglur nýrra ráðherra hefðu verið samþykktar á nýliðnum fundi. Þessar siðareglur eru mjög góðar og innihalda grein þar sem m.a. er sagt að ráðherra leyni ekki upplýsingum og hafi frumkvæði að birtingu þeirra. Hræsni forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, er algjör í þessu máli.

Góðir landsmenn. Nú reynir á nýtt Alþingi og val um hvaða vinnubrögð eiga að ráða ferðinni. Verða það lýðræðisleg vinnubrögð með gagnsæi og ábyrgð að leiðarljósi eða áframhaldandi misbeiting valds, Panama og spilling?