146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Virðulega Alþingi. Góðir áheyrendur. Það eru fjölmargir sterkir og jákvæðir punktar í samstarfssáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Meðal minna uppáhalds eru átak í geðheilbrigðismálum og uppbygging í öldrunarmálum. Líka hertar aðgerðir gegn skattundanskotum og áhersla á græna skatta. Reyndar er áherslan á umhverfismál mikið fagnaðarefni og sama má segja um áherslu á valfrelsi neytenda í landbúnaðarmálum sem og jafnlaunavottunin, bættir verkferlar vegna kynferðisbrota og skilgreining á stafrænu kynferðisofbeldi í hegningarlögum.

Ég fagna ákvæðum sem lúta að því að opna íslenskt samfélag enn frekar á margvíslegan máta, eins settu markmiði um að jafna atkvæðavægi og svo er það peningastefnan. Ekki má gleyma henni, maður lifandi. Ég ætla hins vegar ekki að eyða fleiri orðum í að telja upp einstaka áhersluatriði stjórnarsáttmálans. Mig langar að dvelja við það sem mér er efst í huga núna, jafnrétti í sinni víðustu mynd, frjálslyndi og opið samfélag. Það er ánægjulegt að vera hluti af stjórn sem setur jafnrétti, velferð og frjálslyndi framar öðru. Í því felst framsýnin sem er rauður þráður í stjórnarsáttmálanum.

Aðeins um jafnréttið. Árið 2017 er enn að finna óútskýrðan launamun kynjanna. Eitt af því sem ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á er að útrýma þessum mun. Með lögbundinni jafnlaunavottun undirstrikum við ekki bara góða stöðu Íslands þegar kemur að jafnrétti kynjanna, heldur að við viljum gera enn betur, við viljum útrýma þeim mismun sem eftir situr. Til viðbótar er líka ánægjulegt að sjá fyrirtæki á borð við CCP, eitt þekktasta fyrirtæki okkar Íslendinga, nota tækifærið þegar það fékk jafnlaunavottun sem viðurkenningu á starfskjarastefnu sinni til að kanna sérstaklega launajafnrétti meðal innlendra og erlendra starfsmanna fyrirtækisins. Jafnréttið á sér nefnilega margar myndir.

En það er að fleiru að huga. Rannsóknir sýna okkur að kvíði og þunglyndi eru vaxandi meðal ungs fólks. Það er einfaldlega forgangsverkefni okkar að grípa hér inn í á fyrirbyggjandi hátt svo vandinn vaxi ekki og verði óviðráðanlegur fyrir börnin okkar — og kerfið — þegar börnin fullorðnast. Við ætlum því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, t.d. með því að gera sálfræðiþjónustu aðgengilega í framhaldsskólum. Við þurfum líka að hafa í huga í því efni að markviss vinna gegn staðalmyndum og kynjahyggju er mikilvæg til að uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu sem m.a. beinast gegn fólki með geðræn vandamál.

Við viljum öll búa í öruggu og frjálsu samfélagi. Það er ekki sjálfgefið. Eitt stærsta mein okkar litla samfélags er hryllingur kynferðisbrota og heimilisofbeldis. Við þurfum öll að taka höndum saman í baráttunni þar. Velferð samfélagsins okkar er í húfi. Einn einstaklingur sem líður er einum of mikið. Þetta er ekkert flóknara en það.

Virðulegi forseti. Þegar horft er á heimsmyndina eins og hún blasir við þessa dagana er erfitt að fyllast ekki kvíða. Nær hvert sem litið er, nær eða fjær, eru dæmi um uggvænlega þróun þar sem svonefndir öfgaflokkar hafa náð eða eru nálægt því að ná fótfestu, jafnvel í rótgrónum lýðræðisríkjum þar sem menn hafa sannarlega vítin að varast. Lygilega oft eru fyrstu merkin hertar aðgerðir gegn frelsi og velferð kvenna. Síðan er það hinsegin fólk, annars staðar dómarar, kennarar, fjölmiðlafólk og svo auðvitað útlendingarnir. Í þessu ljósi er enn mikilvægara en áður að við Íslendingar höldum á lofti merkjum frjálslyndis, umburðarlyndis og jafnréttis, ekki bara hér á landi heldur sem leiðarljós í alþjóðlegu samstarfi.

Þessi áhersluatriði eru mjög í anda Viðreisnar. Við trúum því að við gerum Ísland að betri stað fyrir okkur öll með því að styðja við frjálslyndi og jafnrétti á sem flestum sviðum þjóðfélagsins með því að gleyma ekki að við megum aldrei sofa á verðinum þegar kemur að lýðræði og mannréttindum, með því að bera virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum. Eins og stendur í upphafi stjórnarsáttmálans, með leyfi forseta:

„Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar.“

Og ég trúi því að okkur farnist best í þeirri uppbyggingu í samstarfi og samskiptum við þær þjóðir sem standa okkur næst, hvort sem er í viðskiptum eða menningu.

Góðir áheyrendur. Ég lýk máli mínu hér undir áhrifum einnar af mörgum innblásnum ræðum Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrúar Bandaríkjanna: Í íslensku samfélagi gerum við ekki greinarmun á okkur og hinum, við viljum ekki umræðu sem segir „við“ og „þið“. Í frjálsu, ábyrgu, jafnréttissinnuðu og framsýnu íslensku samfélagi eru bara „við“. — Ég þakka áheyrnina.