146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

framkvæmd og fjármögnun heilbrigðisstefnu.

[15:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. heilbrigðisráðherra Óttari Proppé til hamingju með hlutverkið og hlutskipti sitt. Ég hef fulla trú á að hæstv. ráðherra muni leggja sig fram af fullri einurð og heilindum við þetta mikilvæga verkefni, þjóðinni til heilla.

Samkvæmt yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra er aðili að stendur, með leyfi forseta:

„Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna. Stefnt skal að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu.“

Nú langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hann hyggst tryggja fjármagn í þau brýnu verkefni. Hvenær má búast við nákvæmum tímasetningum um framkvæmdina á áætlun þessara forgangsmála?

Þá segir jafnframt í stefnuyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Staða heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verður styrkt. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.“

Forseti. Vegna þess hve þessi málaflokkur er viðkvæmur og hve brýnt það er að tryggja að þessi orð verði efnd langar mig að heyra betur hvernig hæstv. ráðherra heilbrigðismála hyggst koma því í framkvæmd og hvort samið hafi verið við hæstv. fjármálaráðherra um fé í málaflokkinn. Þá má ráða af yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra að ekki sé hægt að fara í víðtæka endurreisn á heilbrigðiskerfinu með fjármagni einu saman. Má skilja það á þann hátt að uppi séu áform um frekari einkarekstur og/eða hagræðingar?