146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

framkvæmd og fjármögnun heilbrigðisstefnu.

[15:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr um þetta núna er að þetta er mjög almennt orðað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur að vera þannig að búið sé að vinna töluverða vinnu undanfarin ár í þessum málaflokki og undanfarna áratugi. En það virðist oft vera þannig að langtímastefnu vanti í stórum málaflokkum, m.a. í heilbrigðismálum. Því langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra Óttar Proppé að því hvort hann teldi ekki skynsamlegt að færa meira af þessari stefnumótunarvinnu inn á Alþingi, í þverpólitíska vinnu, þannig að ekki sé verið að hringla með málaflokkinn á milli kjörtímabila.

Nú hefur hæstv. ráðherra ágætisreynslu af slíku starfi. Hyggst ráðherra nýta sér þá reynslu þegar hann sjálfur er kominn í ráðherrastól?