146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

innflutningur á landbúnaðarafurðum og loftslagsmál.

[15:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði að sjálfsögðu ekki spurningu minni um hvort það sé ekki svolítill tvískinnungur í því að ætla að stórauka innflutning á landbúnaðarafurðum um leið og verið er að blása hér og tala um allt þetta fína græna og fallega. Það er líklega fátt sem mengar meira en akkúrat skipaflutningar, þegar verið er að flytja landbúnaðarafurðir á milli landa, í stað þess að auka framleiðsluna innan lands. Ég hins vegar fagna því sem ráðherrann sagði, að það er tækifæri til að hjálpa landbúnaðinum og styðja hann í átt til umhverfis. Til er samkomulag sem var undirritað hér fyrir nokkrum mánuðum af fyrri ríkisstjórn þar sem einmitt er fjallað um það. Ég hvet ráðherrann til að einhenda sér í það.

Ráðherrann svaraði ekki heldur því hvað hann ætti í raun við með mengandi stóriðju. Þýðir það t.d. að verkefnið í Helguvík sé út úr myndinni? Þýðir það að ráðherrann hyggist beita sér fyrir því að reyna að koma í veg fyrir að verkefnin á Bakka verði að veruleika? Á að takmarka stækkun á iðnaði sem er til staðar í dag? Hvað þýðir þetta varðandi áhuga manna á að reisa einhvers konar iðnað norður í landi? (Forseti hringir.) Og hvað þýðir þetta t.d. fyrir þau verkefni sem eru fram undan á Grundartanga? Allt þetta þarf þingmaðurinn að upplýsa okkur um, um hvað felst í hugmyndum ráðherrans og stjórnarmeirihlutans um mengandi stóriðju.