146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

[15:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu fyrirspurn og þakka fyrir tækifærið til þess að geta útskýrt betur hvað við eigum við í stjórnarsáttmálanum en það er nú kannski þannig að hann getur ekki verið tæmandi útlistun á því hvað við meinum í öllum málum. Þá er mér ljúft og skylt að tala um hvað við ætlum að gera í þessu.

Nú er ég að leita að þessu hjá mér, ég var einmitt með tölulegar upplýsingar. Fyrst og fremst viljum við taka punktstöðuna. Núna er væntanleg og er reyndar komin í drögum, frétti ég síðast í gær, loftslagsskýrsla unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um stöðuna á Íslandi. Ég hef fengið innsýn í hana og staðan er ekkert voðalega góð. Það er alveg á hreinu að við þurfum að hafa okkur öll við. Það þurfa öll ráðuneyti að gera. Allar stjórnsýslustofnanir þurfa að vera á sömu blaðsíðu hvað það varðar að fara saman í þennan leiðangur.

Við höfum skrifað undir Parísarsamkomulagið og verðum með þau viðmið, en auðvitað viljum við gera betur. Fyrst er að fá stöðuna algjörlega upp á borðið, svo er að fara í þá aðgerðaáætlun sem boðuð er. Nú fyrir höfum við vísi að aðgerðaáætlun, það er eitthvað sem hét sóknaráætlun hjá fyrri ríkisstjórn. Hún gerði sitt. En það þarf að kortleggja mun betur, og það liggur á mínu borði, hvað við gerum og hvernig varðandi endurheimt votlendis, orkuskipti í samgöngum, (Forseti hringir.) orkuskipti hjá fiskiskipaflotanum, varðandi skógrækt, varðandi landgræðslu. Svona gæti ég haldið áfram.