146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

[15:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Nú virðist hv. þingmaður aðeins vera að misskilja mig. Ég hef ekki séð skýrsluna. Ég hef ekki fengið að lesa hana. Ég hef séð eina mynd úr henni. (Gripið fram í.) Ég hef ekki lesið hana af því að hún er, eins og ég segi, enn bara drög og ég hef því miður ekki … (Gripið fram í: … einu og hálfu ári síðan.) — Ég hef bara verið umhverfisráðherra í nokkra daga þannig að ég verð að bíða eftir því að þessi skýrsla sé tilbúin. Ef hv. þingmaður hefur eitthvað við það að athuga verður hann að eiga það við Hagfræðistofnun háskólans.

Ég skil óþreyju hennar. Ég er sama sinnis og er búin að vera að ýta á eftir þessu. Við getum ekki sett töluleg markmið, það væri mjög óábyrgt að setja fram töluleg markmið áður en við vitum punktstöðuna. Það er það sem liggur nú í drögum í ráðuneytinu. Við munum koma með aðgerðaáætlun varðandi næstu skref þegar þessi skýrsla er alveg tilbúin. Ég hlakka jafn mikið og hv. þingmaður til þess að það gerist.