146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[15:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hef óskað eftir þessari umræðu við hæstv. fjármálaráðherra til að ræða skýrslu starfshóps um aflandsfélög í skattaskjólum, fræga skýrslu, sem var tilbúin í haust en ekki birt fyrr en núna nýlega. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk kynningu á skýrslunni þar sem margt fróðlegt kom fram, en í raun má líka segja að skýrslan sjálf veki kannski fleiri spurningar en hún svarar. Mér finnst mjög mikilvægt í ljósi þess hversu alvarleg mál er hér um að ræða að hæstv. fjármálaráðherra kynni fyrir okkur sína sýn á til hvaða aðgerða hann hyggst grípa í kjölfar skýrslunnar.

Ég þarf ekki að fjölyrða um hin neikvæðu áhrif sem aflandsvæðingin hefur haft, ekki bara á Íslandi, heldur í vestrænum samfélögum almennt. Það er raunar orðað ágætlega í skýrslunni, með leyfi forseta, þar sem segir skýrt:

„Þannig er ljóst að fjármagnsflótti til lágskattasvæða stuðlar með almennum hætti að vaxandi ójöfnuði og grefur undan velferðarsamfélaginu þegar annaðhvort eða bæði kemur til, að lág- og millilaunahópar þurfi að axla meiri skattbyrðar en ella væri til að bæta upp tekjutap hins opinbera, eða fjarar undan almannaþjónustu.“

Það kemur líka fram að einmitt auðlegð þeirra ríkustu vex hraðar en ella án skattlagningar. Eignastaða lægri- og meðaltekjuhópa rýrnar hlutfallslega við þessar aðstæður. Þannig uxu eignir vel stæðra einstaklinga í einkabankaþjónustu um 7% að verðmæti á árinu 2014 á meðan hagvöxtur á heimsvísu var aðeins helmingur af því, eða 3,4%.

Þetta er nákvæmlega það sem hagfræðingar heimsins eru að eiga við, þ.e. að auðlegð þeirra ríkustu eykst langt umfram hagvöxt. Það hefur óhjákvæmilega þau áhrif að ójöfnuður eykst og við fáum æ fleiri rannsóknir sem sýna að ójöfnuður er ekki bara vandamál fyrir þá sem lenda í honum, þ.e. lenda neðst í ójöfnuðinum, hann er vandamál fyrir samfélögin í heild. Út frá þeim sjónarmiðum, þ.e. að grafið er undan almannaþjónustunni og hagvöxtur minnkar jafnvel í þessum samfélögum o.s.frv., þarf að taka á þeirri meinsemd sem aflandsfélögin eru.

Í skýrslunni er reynt að leggja mat á þrjár aðferðir til þess að skjóta fé undan með þessum hætti; í gegnum milliverðlagningu, í gegnum eignastýringu erlendis og í gegnum óskráðar fjármagnstilfærslur. Það er slegið á að líklegasta matið á upphæðum erlendis sé u.þ.b. 580 milljarðar.

Hliðstæð rannsókn hefur staðið yfir í Danmörku, en það er enn beðið eftir niðurstöðum hennar. Samkvæmt vísbendingum sem íslenski starfshópurinn fékk er íslenska talan ferfalt hærri á hvert mannsbarn á Íslandi en sú tala sem danska rannsóknin leiddi í ljós. Sérstaða Íslands er því mikil í þessu sambandi, en þó ber þess að geta að í dönsku rannsókninni er líka verið að skoða það sem við köllum þunna eiginfjármögnun, þ.e. umsvif fjölþjóðlegra stórfyrirtækja og hvernig þau skjóta fjármunum undan til lágskattasvæða.

Það sem kemur fram í skýrslunni er að fyrir hrun gáfu íslensk skattalög miklu meira svigrúm en annars staðar til flutnings eigna úr lögsögunni og eftirfylgni og gagnaskráning á þessu sviði hélt ekki við hraðan vöxt fjármagnsflutninga. Bent er á það til að mynda að CFC-löggjöfin sé ekki innleidd hér fyrr en 2011, hún er innleidd mun fyrr á annars staðar á Norðurlöndunum, raunar á 7. áratugnum í Bandaríkjunum, en 2004 annars staðar á Norðurlöndum. Sú niðurstaða sem við getum dregið af þessu er að íslensk löggjöf og íslenskt stjórnkerfi var hreint ekki búið undir fjármálavæðingu samfélagsins.

Það kemur ítrekað fram í skýrslunni að tími starfshópsins hafi verið skammur og ráðast þurfi í frekari rannsóknir til að fá skýrari mynd af aflandsvæðingunni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hyggst hann gera það? Hyggst hann láta skoða þetta betur þannig að við getum til að mynda fengið rannsókn sem er samanburðarhæf við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum?

Annað sem kemur fram er að það vantar ítrekað í þessari rannsókn gögn til að geta dregið eðlilegar ályktanir. Eftirlit og gagnaskráning á þessu sviði var ófullnægjandi. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til þess að tryggja að sú verði ekki raunin þegar hér verður t.d. losað um fjármagnshöft og við getum farið að horfa upp á sambærilega þróun þó að auðvitað verði hún aldrei eins og hún var fyrir hrun því þessi tilhneiging finnur sér alltaf nýjar leiðir? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að tryggja að innviðirnir geti tekist á við þetta?

Í síðasta lagi langar mig að spyrja um framtíðarsýn hæstv. ráðherra. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra gera þetta mál, sem vissulega er komið inn á í stjórnarsáttmála, að því (Forseti hringir.) forgangsmáli í stjórnsýslunni sem það þarf að vera til að hægt sé að takast á við þetta? Við vitum vel að þeir fara með fjármuni úr landi eru oftast (Forseti hringir.) aðilar sem hafa her lögfræðinga til þess að fela sína slóð.