146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[15:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Umrædd skýrsla var tekin fyrir hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Þar kom berlega í ljós að hún er eiginlega ekki tilbúin, eða fullbúin skulum við segja. Hún segir okkur lítið um hvað skattsvik eru raunverulega, hve stór hluti fjárins er þar sem bara er verið að leita að skattahagræði. Fram kom hjá formanni starfshópsins að fara þyrfti í frekari greiningarvinnu og afla frekari gagna, sem ég tel rétt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir að haldið verði áfram þannig að menn geti áttað sig á því hvert raunverulegt tekjutap er af skattsvikum. Menn mega ekki grauta öllu saman í umræðunni, þ.e. því sem ekki er talið fram. Við vitum að það er eitthvað, við vitum að það var vandamál. Nú er hins vegar staðan orðin sú að með frekari upplýsingaskiptasamningum og breyttri löggjöf frá 2011 er í sjálfu sér ekki lengur hagkvæmt að vera með fé bundið á þessum svokölluðu aflandssvæðum.

Ég er ekki viss um að vandamálið í framtíðinni sé svo mikið, ég held að það séu í raun og veru minni fjármunir en eru einfaldlega í bankahólfum eða undir koddanum. En engu að síður er rétt að fá það nokkurn veginn á hreint þannig að stofnanir okkar, skattstjórar, geti metið hvort hugsanlega þurfi breytta löggjöf og hvað þurfi raunverulega að gera til að uppræta (Forseti hringir.) svarta starfsemi. Um það snýst málið, svört starfsemi fer fram víða og víðar en á aflandseyjum.