146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[15:54]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Það er áhugavert að hlusta á það sem málshefjandi og hæstv. ráðherra hafa fram að færa.

Í umræddri skýrslu, þ.e. um Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, kemur m.a. fram að miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. um aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins, og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans, er ekki til staðar. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að skattyfirvöldum hefur ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða.

Fyrir stuttu fór fram opinn fundur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þar sem hann var opinn get ég sagt að ég spurði út í atriði tengd þessu á fundi nefndarinnar. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra þess sama, þ.e. hvort honum finnist nauðsynlegt að bæta samstarf milli Seðlabanka og skattyfirvalda um miðlun upplýsinga milli þessara stofnana.

Nú er það svo að skiptar skoðanir eru á milli þeirra stofnana. Kom það fram á þessum opna fundi og varðar þetta eftirlit. Núna eiga viðskiptabankarnir að hafa eftirlit með fjármagnsflutningum úr landi og tilkynna Seðlabankanum um slíkt. En telur hæstv. fjármálaráðherra að það eftirlit sé nægt eða ætlar hann að beita sér fyrir því að það verði eflt?

Ég ætla jafnframt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort upplýsingar séu til um hvaða aðilar það voru sem fluttu út fjármagn í aðdraganda hrunsins, annaðhvort í skattaskjól eða til að takmarka áhættu sína að einhverju leyti, og nýttu sér jafnframt fjárfestingarleið Seðlabankans, svokallaða afsláttarleið, og hvort eitthvert samhengi sé milli þessara hópa eða hvort um sömu aðila hafi verið að ræða.