146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[15:59]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna um þessa skýrslu, skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera. Þetta er skýrslan sem eins og alþjóð er kunnugt var búin að vera tilbúin frá því í byrjun október og kom þá fyrir augu þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra sem ákvað að það væri öllum fyrir bestu að bíða með birtingu skýrslunnar. Sú ákvörðun var í besta falli mistök og í versta falli tilraun til að hylma yfir umræðu um aflandsfélög, eignir Íslendinga í þeim, og þar með hylma yfir umræðu um Panama-skjölin og þátt ráðherrans í þeim.

Innihald skýrslunnar er sláandi og niðurdrepandi. Samkvæmt niðurstöðum starfshópsins má áætla að í lok ársins 2015 hafi uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 legið á bilinu 350–810 milljarðar kr. Þá telur starfshópurinn að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna hér á landi geti numið allt frá 2,8–6,5 milljarða kr. árlega. Það má vel hugsa sér hversu mikið hefði verið hægt að gera fyrir þessar upphæðir sem gagnast hefði menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu, samgöngum og öðrum þjóðþrifamálum okkar allra.

Þessir gjörningar áttu sér ekki stað eingöngu fyrir hrun. Skattframtöl Íslendinga á árunum 2000–2015 leiddu í ljós að framtaldar fjármagnstekjur sem má rekja til aflandsfélaga nema rúmum 30 milljörðum kr. á þessu tímabili. Til viðbótar við það eru upplýsingar um að aðilar hafi selt og innleyst söluhagnað af aflandsfélögum fyrir hátt í 10 milljarða. Alls 40 milljarðar á árunum 2000–2015.

Í skýrslunni kemur margsinnis fram að flestar rannsóknir af þessu tagi taki mörg ár en ekki nokkrar vikur og mun ítarlegri greiningar sé þörf. Mig langar að heyra enn skýrar af hálfu hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann hyggst beita sér fyrir því að rannsaka enn frekar þennan svarta blett á íslenskri fjármála- og hagsögu til að freista þess að fá nánari upplýsingar yfir umfang aflandsfélaga og tap hins opinbera með það að markmiði (Forseti hringir.) að girða fyrir þær glufur og þau svarthol í íslenskum efnahag og hindra að þau geti myndast hér aftur. Hér talar hæstv. ráðherra um heimsóknir til undirstofnana, sem er sjálfsögð kurteisi nýskipaðs ráðherra. (Forseti hringir.) En það er ekki nóg að heimsækja. Það verður að koma fram með tillögur að raunverulegum aðgerðum. Ég sakna þess að hann boðaði ekki beinni aðgerðir í ræðu sinni áðan.