146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[16:04]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Fram kemur í skýrslunni að höfundar hafi einfaldlega ekki haft næg gögn til að vinna úr og það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að þau hefðu heldur ekki haft þann tíma sem þau hefðu viljað til að fullvinna rannsóknina því það var rekið svolítið mikið á eftir því að skýrslunni yrði skilað. En tímaleysið gæti verið góð ástæða til að nýta skýrsluna sem inngangspunkt fyrir ítarlegri rannsókn á ákveðnum áhersluþáttum og ef til vill frekari samvinnu við önnur lönd með það að markmiði að draga úr vægi skattaskjóla.

Ítarleg rannsókn gæti t.d. beinst að því að rannsaka fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands sem grunur er uppi um að hafi verið nýtt í annarlegum tilgangi, t.d. til að magna upp fjármagn sem áður hafi verið skotið út úr skattumdæmi Íslands. En sú mögnun hefði þá verið á kostnað hins opinbera. Sömuleiðis á enn þá eftir að útskýra 400 milljarða kr. óútskýrða skekkju í gögnum um viðskipta- og fjármagnsjöfnuð hjá Seðlabankanum.

Gagnaskorturinn sést einkum á því að fjármálaeftirlit Lúxemborgar sá ekki ástæðu til að deila upplýsingum með Fjármálaeftirliti Íslands sem gætu nýst við rannsóknir á óeðlilegum viðskiptum. Í skýrslunni er horft svolítið mikið til skattaskjólsráðstafana sem áttu sér stað í gegnum Lúxemborg en ekki litið með beinum hætti til annarra skattaskjóla. Ég mundi gjarnan vilja beina því til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hér gætu farið fram rannsóknir til að varpa frekara ljósi á atburðarásina sem leiddi til þess að Íslendingar urðu svona umsvifamiklir skattaskjólsbraskarar fyrir og eftir hrun, stöðu mála í Seðlabankanum á þessum tíma og sömuleiðis til (Forseti hringir.) að hægt sé að útbúa lagasetningu sem kemur í veg fyrir áframhald á þessu.