146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um húsnæðismál, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt og margslungið mál. En við erum öll sammála um mikilvægi þess að allir hafi þak yfir höfuðið, hvort sem þeir velja að leigja eða hafa tök á eða vilja til að kaupa fasteign. Ég vil því þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að hvetja til þessarar umræðu í þinginu og þakka ráðherra fyrir svör hans.

Staða húsnæðismarkaðarins hefur verið mikið til umræðu á síðustu misserum enda hefur hið margumrædda hrun gríðarlega mikil áhrif á þann markað. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á það áðan hvaða áhrif það hefði haft, en reyndin er sú að byggingarmarkaðurinn hér á landi hefur mjög oft verið í sveiflum, ekki bara síðustu ár. Það er eitthvað sem ég held að stjórnvöld og hið opinbera, hvort sem það erum við sem hér erum inni, sveitarfélögin eða markaðurinn sjálfur, þurfi að vinna sameiginlega að, að ná ákveðnu jafnvægi á þeim markaði. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið. Ég held að það séu eflaust fáar atvinnugreinar sem glíma við jafn mikið af gjaldþrotum og einmitt þessi geiri.

Á síðasta kjörtímabili voru gerðar töluverðar lagabreytingar er varða húsnæðismál. Ég treysti því og heyrði á hæstv. ráðherra að hann mun fylgja því vel eftir. Ég held að mikilvægt sé að vakta það.

Rætt var hér um skort á leiguíbúðum. Hann hefur verið mikið í umræðunni á síðustu misserum. Þá langar mig að benda á, því að ég hef tölur um það á höfuðborgarsvæðinu, að okkur er ljóst að íbúðum hefur ekki fjölgað jafn mikið og við gerðum ráð fyrir, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Á árunum 2006–2015 bættust við 8.100 íbúðir á svæðinu. Tæplega 50% af þeim íbúðum eru í eigu lögaðila. Ég ætla þá að gefa mér að flestir þeir lögaðilar séu eflaust leigufélög. Það er því að verða gríðarleg breyting á þessum markaði á mjög skömmum tíma. Við vorum að tala um þetta fyrir nokkrum misserum síðan, að það vantaði leiguíbúðir, en nú eru leigufélögin að taka myndarlega til og eru búin að fjárfesta líka mjög mikið á árinu 2016. (Forseti hringir.)

Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að huga að, en ég bendi líka á það sem kom fram í máli ráðherra: Þegar kemur að fasteignakostnaðinum er vaxtakostnaðurinn stærsti þátturinn. Þar er auðvitað öguð hagstjórn sem við stýrum hér inni mikilvægasti þátturinn.